Krossfarinn

Ferðin til landsins helga

nóvember 26, 2004

Að forminu til.

Ef þið yrðuð að taka í burtu eitt form, hvaða form myndi það vera?
-Sérstakar þakkir fær Bjartur, fyrir að bera upp spurninguna.

Ef þið mynduð fá spjót í gegnum ykkur, hvað mynduð þið gera?
-Sérstakar þakkir fær Siggi Frosti, fyrir að bera upp spurninguna.

Af hverju?
-Sérstakar þakkir fær Hjalti, fyrir að bera upp spurninguna... oft og mörgum sinnum.

Þetta eru samviskuspurningar, svo hugsið ykkur vel um áður en þið svarið.

|

nóvember 22, 2004

Prófatími

Prófin nálgast allt of hratt. Það er kominn sá tími er maður óskar þess að hafa staðið sig aðeins betur undanfarnar vikur og mánuði. Óskar þess að hafa mætt í fleiri tíma, óskar þess að hafa lesið meira og betur og óskar þess að hafa lagt meira í skilaverkefnin. Ég er reyndar svo heppinn að standa ekki í þessum sporum núna. Ég er hinsvegar svo óheppinn að standa í þeim sporum að óska þess að hafa mætt einhvern tímann, lesið eitthvað og lagt eitthvað í verkefnin. Ég sé fram á það að falla og fallið er hátt. Úr glæsieinkunum niður í engar einingar fyrir önnina. Ekki bætir úr skák að búið er að bæta við aukasýningum á Þú veist hvernig þetta er. Ekki að það skipti nokkru máli. Gefur mér bara ágætis afsökun, get kennt stúdentaleikhúsinu um eigin anmarka.
...Best að hrista af sér slenið, setja Dylan á fóninn og halda áfram með bifdýraskýrslu. Sýning í kvöld og ég vona að Hannes sé hættur að gubba...

|

nóvember 19, 2004

Kopps

Skrapp í bíó í gær og sá sænsku myndina Kopps. Stórgóð mynd verð ég að segja. Hún er frá sömu aðilum (meira að segja með sömu leikurum) og gerðu Jalla Jalla og í svipuðum stíl. Mæli með henni.
Verð þó að taka fram að í þeim félagsskap sem ég horfði á myndina hefði verið gaman að horfa á málningu þorna.

|

nóvember 17, 2004

Andstæðingar krossfarans

Ég er farinn að fá comment á friðargæslu-færslurnar mínar frá einstaklingum sem ég þekki ekki neitt. Mér finnst frábært ef fólk er farið að ramba inná síðuna mína og lesa það sem ég hef að segja.
,,Jóli" hafði t.d. þetta að segja um eina af færslum mínum: ,,Vá hvað sumir eru greinilega sárir og fúlir yfir því að hafa ekki komist í friðargæsluna, þú ert eins og leikskóla barn sem fékk ekki eins liti og hinir strákarnir, Vælir og klagar. Hvað í óskupunum er í gangi hjá þér vinur. Það er kominn tími á að kíkja til sálfræðings og láta hann skoða toppstikið á þér. Þú veist ekki baun hvað þú ert að tala um, því ráðleg ég þér að snúa þér að öðrum málefnum."
Mér þykir frábært að fá svona skoðanaskipti á síðunni minni og vona að fólk skilji sem oftast eftir orð sín. Hinsvegar eru þeir sem ekki þora að skrifa undir nafni vinsamlegast beðnir um að halda eigin heigulshætti fyrir sig.

|

nóvember 16, 2004

Krossfarinn sigrar.

Ég skokkaði í gær!

|

nóvember 15, 2004

Meira um (ó)friðargæslu

Af hverju sagði enginn neitt?
Nú er svo komið að makar friðargæsluliða hafa sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að mjög svo ósmekkleg áletrun á bol þeirra félaga hafi verið gegnrýni á yfirmann þeirra. Þessu er erfitt að trúa þar sem þeir þvertóku fyrir allt slíkt við heimkomuna. Ég skil þetta ekki. Maður veltir fyrir sér hvort þeir séu bundnir einhvers konar þagnareið eða hvort þeir megi ekki, einhverra hluta vegna, tjá sig um málið. Það heyrist ekki múkk í þeim, eða félögum þeirra sem ekki voru með í teppaleiðangrinum, ekki einu sinni þessum sem missti aðra jólakúluna. Af hverju ekki. Ég veit ekki hversu margir Íslendingar eru á Kábúl flugvelli en þeir hljóta að vera þó nokkrir. Af hverju sagði aldrei neinn neitt?!!? Þeim voru fengin vopn í hendur og sendir út í hættulega leiðangra. Ég á erfitt með að trúa að þetta hafi verið í fyrsta skiptið. Eru virkilega allir þessir menn svo gegnsýrðir af hervæðingunni að þeir gleyma að þeir séu slökkviliðsmenn? Eða er þetta þjóðareinkenni Íslendinga að brjótast fram, láta allt yfir sig ganga og gera bara það sem manni er sagt? Ég neita að trúa að þeir séu allir annað hvort stórir strákar í tindátaleik, eða heimskar kindur! Hvað gerðist?
Síðan hvenær er slökkviliðsmönnum óheimilt að gagnrýna starfsaðferðir yfirmanna sinna, sérstaklega ef þær stefna þeim og félögum þeirra í hættu? Verða þeir dregnir fyrir herdómstól eða kærðir fyrir landráð. Er kannski búið að stofna íslenskan her án okkar vitundar. Nei, því ef þjálfa á her tekur það lengri tíma. Elsku Davíð, Björn og Halldór. Slökkviliðsmenn með byssur eru ekki hermenn. Ég bið ykkur. Hættiði þessari vitleysu áður en fleiri sakleysingjar deyja.

|

nóvember 12, 2004

Gleðileg jól öll sömul!

Það eru tvær byggingar á jörðu sem sjást út úr geimnum. Annars vegar er það kínamúrinn og hinsvegar jólaskreytt þak Kringlunar.
Reyndar sjást hvorugt þessara mannvirkja úr geimnum en ég er viss um að þakið á Kringlunni sést alla leið til Svalbarða. Of framhleypin jólastemming hefur alltaf farið í taugarnar á mér. Jólahlaðborð auglýst utaná strætu í byrjun september, jólakókómjólk komin í búðir í október og kringlan upplýst í byrjun nóvember. Ég vann ein jól í Blómavali og seldi þar jólaseríur. Byrjaði í byrjun nóvember að mig minnir, og þótti það vel. Róleg og afslöppuð jólastemmingin var notaleg. Svo þegar jólin fóru að nálgast fylltist búðin af stressuðum húsmæðrum og húsbændum í tímaþröng. Öll jólastemming fór fyrir lítið og ég var farinn að hata dansandi rafjólasveininn sem söng "jingle bells" allan sólahringinn. Svo fór að ég sagði upp á aðfangadag og bað þá að hringja aldrei aftur í mig.
Þannig jól vil ég ekki eiga aftur og þannig jól vil ég að enginn eigi, nokkurn tímann. Við erum svo gjörsamlega búin að tapa okkur. Ég ætla ekki að halda yfir ykkur fyrirlestur um hinn sanna anda jólanna. En þeir sem vilja vera með að krossfesta jólasveininnn á dollaramerki þakið jólaseríum eru velkomnir á plan Kringlunnar á tíma nánar auglýstur síðar.
Gleðileg jól og gleðilega páska.

|

nóvember 10, 2004

Þú veist hvernig þetta er

Ég hef verið hækkaður í tign í stúdentaleikhúinu úr ljósamanni í nokkuð stórt hlutverk svo nú hafið þið enga ástæðu ekki til að koma. Nú er komið að því að plögga smá:

Stúdentaleikhúsið kynnir:
Þú veist hvernig þetta er
Stúdentaleikhúsið sýnir um þessar mundir verkið Þú veist hvernig þetta er.Verkið er samið af stúdentum, sett upp af stúdentum fyrir stúdenta. Íslendingar eru furðuleg þjóð. Við erum best í öllu miðað við höfðatölu, það er dýrara að keyra of hratt en að misnota einhvern kynferðislega og þeir stjórnmálamenn sem stela frá okkur fá að launum stöður í stjórnum ríkisrekinna stórfyrirtækja, nú eða borgarstjórastólinn sjálfan. Við eigum slökkviliðsher og okkar eigið Idol og þing sem hlustar ekkert á hvað þjóðin vill. Svona sér Stúdentaleikhúsið þjóðina og það skorar á þig, hvort sem þú er sammála eða ekki, rauður eða blár, að koma og sjá sýninguna.
Leikstjóri er Jón Páll Eyjólfsson.Frumsýning var 31. október, og eru sýningar þann 7., 9., 11., 12., 13., 21., 25. og 27. nóvember.
Sýnt er í Tónlistaþróunarmiðstöðinni – Hólmaslóð 2.
Pöntunarsími er: 6593483
eða á studentaleikhusid@hotmail.com
Miðinn kostar 1000 kr.-
Sýningin er ekki við hæfi barna!

|

nóvember 03, 2004

Meira um hetjurnar okkar

Bjartur félagi minn kom með skemmtilega líkingu varðandi hetjurnar okkar. Þeir eru eins og littlir strákar sem bannað var að hlaupa yfir götuna. Þeir gerðu það engu að síður og sluppu með skrekkinn. Bílstjórinn nefnilega sveigði af veginum til að forðast árekstur en klessti í stað þess á tvær ungar stúlkur á gangstéttinni. Strákunum er svo hrósað fyrir snarræðið og sagt að þarna hefðu þeir gert vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Misskilingur minn varðandi yfirmanninn, sem stóð að teppaförinni hættulegu, var leiðréttur í gær. Hann er ekki einhver bandarískur liðþjálfi heldur íslenskur hjálparsveitamaður. Hann er þá væntanlega hetja líka. Kannski að hann fá sæti í stjórn einhverra af stóru ríkisfyrirtækjanna eins og Árni Jónsen. Fái ríkulega launað fyrir góð störf í okkar þágu...

|

nóvember 02, 2004

Þeir sem verja frið eiga ekki að hefja stríð!

Ég vil að fram komi að friðargæsluliðarnir bera ekki einir ábyrgðina á harmleiknum í Chicken street. Sá sem kastaði sprengjunum ber á endanum höfuð ábyrgðina. En ég stend fast á því að þessir menn séu engar hetjur og það sé þeim, og einungis þeim, að kenna að þeir séu sárir. Hvað varðar stelpurnar sem dóu finnst mér ábyrgðin lyggja jafnt hjá þeim sem og árásarmanninum sjálfum. Hefðu þeir verið að slökkva í brennandi byggingu eða verið að afferma flugvél hefði málið litið öðruvísi út. Þegar öllu er á botninn hvolft sýndu þeir vítavert gáleysi, vanvirðingu og hreina og klára heimsku!

|

nóvember 01, 2004

Hetjurnar snúa heim - húmbúkk

Þeir lentu í ótrúlegum hremmingum og eru heppnir að sleppa lifandi. Þeim er tekið fagnandi við heimkomuna og þeir eru sannar hetjur... samkvæmt öllum fjölmiðlum á Íslandi. Húmmbúkk segi ég!
Hvern djöfulinn eru íslenskir slökkviliðsmenn að gera útá götu í Kabúl með alvæpni? Tökum þetta út. Þeir fara í "missjón" eins og þeir kalla það, sem kemur friðargæslu nákvæmlega ekkert við. Þeir skoða aðstæður á Chicken street tveimur dögum fyrr sem þýðir að þessi aðgerð var skipulögð. Þeir stóðu á verði fyrir utan teppabúðina með alvæpni og skimuðu eftir leyniskyttum og svo sprakk allt í loft upp.
Þeir voru s.s að gera eitthvað sem er langt fyrir utan starfssvið þeirra, á okkar kostnað, og án þess að hafa þjálfun í það. Þeir segjast ekki vera hermenn en samt standa þeir á verði með byssur að passa leyniskyttur. Þeir vissu af hættunni en fóru samt. Ég vissi ekki að starf slökkviliðsmanna væri svona fjölbreytt. Hvað í fjandanum voru þeir að gera? Svo er þeim hygglt sem hetjum! Þeir eru svo heppnir að vera lifandi. Kraftaverk! Húmbúkk. Það er þeim að kenna að 11 ára stelpa er dáin. Það er þeim að kenna að 23 ára kona er dáin og það er engum nema þeim að kenna að þeir séu slasaðir sjálfir. Ef þeir hefðu ekki farið út að versla á götu sem búið var að vara þá sérstaklega við hefði littla stúlkan aldrei dáið og bandaríska konan væri enn á lífi. Þvílíkar hetjur.
Ég er svo stoltur af íslenska hernum okkar. Takk Björn, takk Halldór og takk Davíð. Munið bara að senda fjölskyldu littlu stelpunar jólakort og þakka fyrir stuðninginn við hervæðingu Íslands.

|