Krossfarinn

Ferðin til landsins helga

október 27, 2004

Krossfari á villigötum

Þegar ég var í menntaskóla hlakkaði ég mjög til háskólaáranna, þ.e. skólalega. Ég hélt að þegar maður væri kominn þetta langt þá findi maður eitthvað að læra sem ætti mjög vel við mann, maður hefði áhuga á og myndi njóta. Sjaldan hef ég haft jafn rangt fyrir mér. Nú er ég búinn með rúmlega tvö ár í líffræði og sé glitta í endamarkið. Það er vel en það er ekki vel hversu nálægt því ég er að hætta þessari vitleysu. Ég held að þið gerið ykkur ekki grein fyrir hversu leiðinleg líffræði í Háskóla Íslands er. Í fyrsta lagi eru kennararnir flestir rykfallin möppudýr sem kennt hafa í 200 ár og hafa engan áhuga á neinu nema rannsóknum sínum. Aðrir hafa brennandi áhuga á dreyfingu þanglúsar við Íslands strendur eða það sem verst er tölfræði. Líffræði snýst nefnilega um tölffræði. Bara tölfræði og ekkert annað en tölfræði.
Kúrsarnir sem ég er í eru hver öðrum leiðinlegri. Vistfræði spendýra, sem með réttu ætti að heita ,,vistfræði íslenska refsins í ótrúlega leiðigjörnum smáatriðum'' (refurinn er aðal rannsóknarefni kennarans). Grasafræði, en nafnið segir allt sem segja þarf. Verkleg erfðafræði sem er fáránlega mikil vinna miðað við eina fjandans einingu, og vistfræði... sem er bara tölfræði.
Eftir stendur tilraunadýr og vísindarannsóknir sem er skemmtilegur kúrs. Auðvitað er kennarinn dýralæknir og fagið bara tvær einingar þannig að sú gleði er skammvinn.
Þetta er kannski of mikil neikvæðni hjá mér. Það eru vissulega skemmtilegir og góðir kennarar inn í milli og sum fög áhugaverð. En þegar öllu er á botninn hvolft þá langar mig ekki að vera líffræðingur.
Krossfarinn er villtur.

|

október 21, 2004

Undirgefni almúgans.

Af hverju eru íslendingar svona miklir aumingjar þegar það kemur að kúgun yfirvalda?
Sumir segja að þetta sé greypt inní þjóðarsálina. Við höfum látið berja á okkur í aldanna rás og ekki haft nokkur tök á að verja okkur. Þess vegna hafi þjóðin þróað með sér einhvers konar skíta-þol, þ.e. þolir einkar vel að láta drulla yfir sig. Ég held að þetta sé ekki svo fjarri lagi. Þ.e.a.s. að við séum einkar dugleg að láta taka okkur í rassgatið vaselín laust... og það með bros á vör. Hvergi annars staðar fá brottreknir bankastjórar þægilegar sendiherra stöður eftir að hafa boðið sér og sínum í lax og út að borða. Allt á kostnað Seðlabankans. Hvergi annars staðar er mönnum í sveitastjórnum sem ráðið hafa alla sína nánustu í opinberar stöður umbunað með þingsæti. Hvergi annars staðar fá dæmdir þing-glæpa-amenn sem hafa orðið uppvísir af múturþægni, þjófnaði og yfirhilmingu að sitja í stjórn ríkisrekna stórfyrirtækja... og það á meðan þeir eru enn á skilorði!
Við erum Íslendingar og sem slíkir erum við lang fyrigefnasta þjóð í heimi. Öllum er fyrirgefið allt. Andi Jesú Krists svífur yfir vötnum. Persónulega hefði ég viljað setja ónefndan “þingmann” í gapastokk og stilla honum upp á Austurstræti. Svo fengi hver sá sem hann stal frá, það er öll þjóðin, eitt högg með flötum lófa beint á rassinn á honum. En því miður vorum við ekki einhuga um það, ég og þjóðin, svo nú situr hann í stjórn, með fín laun og límir saman steina sem hann kallar svo listaverk.
Já, ég er stoltur af íslenskri stjórnsýslu og þolinmæði kjósenda.

|

október 15, 2004

Af-hverju-mæli

Í gær átti ég afmæli og þið sem ekki sendu mér kveðju ættuð að skammast ykkar.
Þetta er í raun frekar kjánaleg hefð. Fagna því á tólf tungla fresti að maður fæddist. Ég man lítið ef nokkuð frá fæðingardegi mínum. Var held ég frekar erfiður fyrir fjölskyldu mína. Mamma fór á spítala, pabbi fékk stress kast, Torfi þurfti að fara eitthvert í pössun og ég endaði í súrefniskassa. Var á heildina litið frekar slæmur dagur.
Þrátt fyrir það eru afmæli ekki bara skemmtileg heldur nauðsynleg. Að geta fagnað á annars ómerkilegum dögum, farið í sitt fínasta púss og sínt velþóknun sína á samferðafólki og boðið því í kaffi. Það svo geldur í sömu minnt og gefur manni pakka. Svona til að segja að þú sért nógu merkilegur til að ein klukkustund úr vinnudegi viðkomandi var helguð því að safna fyrir gjöf til þín. Það að fólk mæti í slík boð og fagni endurtekið fæðingu þinni sýnir líka svo ekki verði um villst að koma þín í þennan heim var og er mörgum fagnaðarefni. Þrátt fyrir að maður hafi fæðst með gulu.
Síðasta ómerkilega miðvikudag hélt ég fæðingarfögnuð og fékk til mín það frændfólk sem gengur mér næst að tunglhringjafjölda. Það var ósköp notalegt og ég fékk margar góðar gjafir. Þar sem ég er mjög slakur í að þakka fyrir mig vil ég koma á framfæri þökkum til þeirra sem gáfu mér bæði viðveru og veraldlegt glingur, glingur sem mér þykir vel vænt um. Þarna áttum við notalega stund og með hjálp góðra vina eins og Betty Croocker og Barbi gat ég haft kökur á borðum, eins og vera ber í afmælisveislum.
Sjálfan afmælisdaginn var ég svo umvafinn vinum úr stúdentaleikhúsi og þar kom afmæli mitt sér sannarlega vel. Við gátum ekkert æft sökum ómannúðslegs hávaða í æfingarhúsnæðinu og þá fórum við öll á barinn. Þegar á 11 var komið var ekki laust við að yfir fólki héngi slæða samviskubits og tilgangsleysis því ekkert var tilefnið fyrir virkudagsdrykkju önnur en niðurfelling æfingar. En bíðiði hæg. Tryggvi átti afmæli. Þarna var komið bæði tilefni og ástæða, sem einmitt er það sama. Allir tóku gleði sína á ný og sungu og skáluðu af miklum móð það sem eftir lifði kvölds.

|

október 10, 2004

Enski drekinn og skytturnar 11

Þessa stundina er fyrirheitna landið England. Þaðan voru jú flestir krossfaranna. Það er þó ekki ástæðan fyrir því að stafn skip míns stefnir suður eftir. Það eru ekki krossfarar sem kalla mig heldur skyttur. Lengi hefur mig langað á leik með Arsenal og svo ber við að félagi minn sir. Stu risi hefur boðið mér gistingu í miðri Lundúnaþokunni ef ég þori. Ég er að reyna að haga ferð minni þannig að ég geti séð skytturnar skjóta niður fleiri vesalinga og marsera áfram til æðstu metorða annars vega, og heimsækja frelsishetjuna blámálaða bróður minn í norðri hinsvegar. Það gengur mjög illa. Fyrst ber að nefna það okur sem tíðkast á enskum knattspyrnuvöllum. Einhver þarf jú að borga launin hans Henry (the first... among equals) en ég er hræddur um að pyngja mín leyfi ekki þann munað. Í öðru lagi er glæpsamlega langt á milli Lundúna og Glasgow borgar og í þriðja laga má pílagrímsför mín ekki taka of langan tíma. En þetta er ljón sem öll verða rist á hol með lensu minni og England mun falla. Sem Guð er mitt vitni mun ég koma bróður mínum til hjálpar og fella enska drekann!

|