Krossfarinn

Ferðin til landsins helga

september 29, 2004

Nýtt líf í gömlum heimi

Eftirfararandi er upptaka af lýsingu íþróttafréttamanns á síðasta sunnudagseftirmiðdegi í lífi mínu:
Þetta er alveg ótrúlegt. Spennan er rafmögnuð og andrúmsloftið lævi blandið. Áhorfendur hafa komið sér vel fyrir í þessu barnaafmæli Ragnheiðar litlu en það leynist engum að athyglin beinist öll að leikmanni nr. 3 í 3. kynslóð, Guðrúnu Ernu. Fyrr í dag, nánar tiltekið 12.30, lék Guðrún þann leik að fara upp á fæðingadeild. Það var ekki í fyrsta sinn sem hún fór þá leið í gegnum vörnina en fyrri atlögur voru bæði bitlausar og ómarkvissar og runnu á endanum út í sandinn. Þess vegna binda áhorfendur miklar vonir við innkomu Skúla og að það verði til að hleypa henni kapp í kinn og að í þetta skiptið færi hún alla leið....
...Hér virðast allir liðsmenn og áhorfendur vera mættir en þó vanntar... bíðið við. Síminn pípir og Lára tekur hann upp. Stúkan dettur í dúnalogn og við bíðum spennt!... 4 cm. í útvíkkun! Já þetta er ótrúlegt. Guðrún er ekki af baki dottin. Þessi ungi og efnilegi leikmaður bregst hvorki áhorfendum né liðsmönnum sínum og skilar hér sannfærandi 4 cm. Áhangendur hennar eru að vonum ánægðir en þeir vita að það er enn löng leið fyrir höndum svo þeir eru fljótir að grípa aftur til kaffibollans og barbí kökunnar...
...Spennan magnast enn og er orðin nær óbærileg...
...Nú hefur ekkert frést í langan tíma og áhorfendur teknir að týnast heim. Guðrún virðist ekki ætla að fylgja eftir þessari góðu byrjun en hún... nei síminn pípir!,,, Það eru 7 cm í útvíkkun! Guðrún virðist ætla að fara þetta á fáum stoppum og skjóta þar öðrum keppendum, bæði eldri og reyndari, ref fyrir rass. Nú þurfum við væntanlega ekki að bíða þess lengi að hún fari alla leið. Og jú, nú pípir hann aftur! Það eru 10 CM! Ótrúlegur árangur. Ég hef ekki upplifað slíka spennu síðan Vala Flosa vann ólympíubrons. Þvílíkur árangur. Þvílíkur leikmaður. Þvílík snilld...
...Það virðist hafa hægt á þessu hjá stelpunni enda er þessi síðasti hjalli geysi erfiður. Skemmst er að minnast þess er Hollendingar stóðu með pálman í höndunum á Evrópumótinu ´86 en klúðruðu því svo á lokasprettinum. Ég hef enga trú á að það sama gerist hér í dag en áhorfendur virðast ekki vera á sama máli. Þeir eru komnir í yfirhafnir og farnir að tínast heim enda klukkan langt gengin í átta...
...Tryggvi sjálfur er kominn í jakkann og þá er fokið í flest skjól. Þetta er búið dömur og herrar! Tryggvi er á leið út og þá hefur feita konan sungið! Þetta var nálægt en enginn vindill! Þetta er sorglegt því þetta leit svo vel út á tímab... bíðið... Síminn var að pípa!... Erum við að verða vitni að ógleymanlegu augnabliki í sögunni. Lára tekur upp símann og opnar skilaboðin. Tryggvi er kominn aftur inn í stofuna... ÞAÐ ER STELPA!!!!... Það er stelpa. Þetta er ótrúlegt! Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins! Áhorfendur fagna sem óðir væru og liðsmenn stíga trylltan sigur dans (hér byrjaði "Chariots of fire" að óma í hátalarakerfinu). Guðrún hefur skráð sig á sögubækurnar og gert Ernu Kolbeins að langömmu í leiðinni. Hverjum hefði dottið þetta í hug. Eftir alla þessa baráttu og allan þennan tíma. Já það skal aldrei afskrifa nokkurn þann sem í æðum sínum ber Kolbeins blóð! Guðrúnu hefur tekist hið ómögulega og slegið öll met. Hún kom sá og sigraði. Þvílíkur leikmaður!
Við erum komin langt yfir tímann og verðum því að kveðja. Logi kemur með fréttirnar hér rétt á eftir en við endum þetta á því að óska öllum til hamingju, á þá sérstaklega Guðrúnu, með þennan ótrúlega árangur! Veriði sæl.

|

september 24, 2004

Heill sé þér

Heill sé þér er fært hefur dáðasta son Íslands aftur til síns heima.

Heill sé þér heimur
heill sé þér gæfa.
Leggið niður dregilinn
blásið í lúðra svo heyrist til himna.
Hermaður sá er árana ærði
djöflana deyddi
óvinum eyddi
er snúinn heim.
Gleði skal ríkja svo himnarnir opnist
leggið niður plóga, axir og skóflur
takið upp bikar og skálið og fagnið
því bróðir minn eini
mun snúa aftur heim.


|

september 20, 2004

Barist við ljónin

Neikvæðni er einhver sá versti löstur sem hægt er að hafa. Þar sem ég er maður margra hugmynda, og ekki eru allar jafn góðar, hef ég fengið minn skerf af bölsýni og neikvæðni. Það eru bestu hugmyndirnar sem eru langsóttar. Draumarnir sem svífa hæst eru bestir og markið sem sett er hæst skilar bestum árangri. Ég veit ekki hvort það er ígrætt í mannsálina að halda aftur af samferðafólki. Oft virðist svo vera og ég sjálfur hef staðið mig að því að þykja hugmyndir kjánalegar vegna þess að þær eru langsóttar og mér sjálfum datt þær ekki í hug. Af hverju er það? Það græðir enginn á neikvæðni og allra síst sá sem henni beitir. Af hverju ekki að hrósa náunganum og af hverju ekki riðja þeim ljónum úr vegi sem hindra för góðra hugmynda í stað þess að væla hversu stór ljónin eru og hversu beittar tennur þeirra eru. Í stað þess að benda á vandamálin, bendum heldur á lausn á þeim.
Kveikjan að þessum pistli mínum eru samræður sem ég átti við félaga mína. Ég er að fara til Thilands næsta vor og langar að ferðast í framhaldi af þeirri ferð. Fara til Kambódíu og upp til Kína eða niður Pólýnesíu og alla leið til Ástralíu. Ég var að reyna að plata þá með en neikvæðnin lak af vörum þeirra. Ekki það að þeim langi ekki að koma með mér, síður en svo. Ferðalagið er of dýrt, er of heitt þarna og of langt þangað. Í stað þess að reyna að komast ódýrt, finna svalari stað og fara ekki alveg jafn langt þá var hugmyndin kæfð í fæðingu. Hræðslan við ljónin bar stríðsmanninn ofurliði. Ekki mig. Ég fer þá bara einn. Ég þarf engan her til að komast til fyrirheitna landsins og hvað þá til Kína. Krossfarinn heldur því för sinni áfram með brugðið sverð og blikandi brynju og engin ljón munu stoppa för mína...

|

september 16, 2004

Mótmæla skal því er á móti okkur mælir!

Í kvöld eru skipulögð mótmæli fyrir utan Þjóðarbókhlöðuna klukkan 19.00. Þjóðarbókhlaðan lokar einmitt klukkan 19.00 og ætla nemendur að mótmæla því með því að setjast fyrir utan aðalinnganginn og halda áfram að lesa. Ég lýsi hér með yfir stuðningi við þetta uppátæki og jafnvel, ef ég finn mér tíma, ætla ég að sýna stuðning minn í verki og mæta. Ég verð þó um leið að viðra áhyggjur mínar og óánægju. Það er allt gott um það að segja að blása í herlúðra og marsera fram á vígvöllinn þegar að námsmönnum er vegið. Sýna samstöðu og samheldni og láta ekki allt yfir sig ganga. Mér finnst hinsvegar forgangsröðunin, eða öllu heldur gildismatið vera orðið brenglað hjá forkólfum stúdentaráðs. Stríðsbumbur eru barðar og sverðin brýnd þegar við meigum ekki læra fram á kvöld en það látið afskiptalaust þegar íslensk stjórnvöld réðust á annað fullvalda ríki með fulltyngi Bandaríkjamanna. Það er víst allt í lagi að sprengja einhverja araba út í eyðimörk í loft upp, bara ef við fáum námslánin okkar. Allt í lagi að leggja undir sig heilt ríki, en bara ef við fáum nýtt hús með stærsta glugga landsins. Hefði ekki verið eðlilegra að rísa upp á afturlappirnar þá og nota kraftinn sem í stúdentum býr og draga Davíð og Halldór upp úr skotgröfunum. Flengja þá svo vel og segja þeim að borða bara skyrið sitt.
Ég ætla að mæta í kvöld í vígahug. Ég bara vona að þegar Bandaríkin ráðast á Ísland að Írakar mótmæli. Verði ekki of uppteknir að mótmæla skertum oppnunartíma Moskvunar í Bagdad.

|

september 13, 2004

Hetjur og hórur

Öll þurfum við á fyrirmyndum að halda. Fyrirmyndum sem við lítum upp til og viljum líkjast. Þær hvetja okkur til dáða og fylla okkur eldmóð er á móti blæs. Vandinn er hinsvegar að vinsælustu fyrirmyndirnar eru þær sem okkur ber síst að líkjast.
Bernska mín er uppfull af slíkum kauðum. Ekki veit ég hvers vegna ég fann engan í mínu nánast umhverfi. Kannski vegna þess að allir karlmenn í kringum mig unnu skrifstofu vinnu sem ég áttaði mig snemma á að ætti ekki við mig. Þess vegna leitaði ég út fyrir 50 mílurnar og fann mína fróun þar. Þeir sem ég leit upp til voru: Ian Wright, orðljótur framherji Arsenal sem snéri sér svo að sjónvarpsspjall-þáttum eftir að ferlinum lauk, svo var það Roberto Baggio eða "the Divine Ponytail," og loks Neggerinn. Ekki er hér fallegur listi á ferð. Einn er það þó sem ber höfuð og herðar yfir alla þessa menn. Bond, James Bond. Nýlega endurnýjaði ég kynni mín við Sean Connery og hlakkaði ég svo mjög til að hitta fyrir gömlu kempuna, minn annan föður. En endurfundirnir fóru ekki á þann veg er ég óskaði mér. Þessi enski sjentilmaður skaut mann í hjartastað að stuttu færi eftir að kauði hafði tæmt úr byssu sinni og ekki hitt. Hann var sem sagt í raun vopnlaus og það vissi hetjan okkar. En það stoppaði ekki James okkar að klára verkið. Með brillíantín í hári og glott á vör gekk hann frá vel heppnuðu kvöldi og fór á stefnumót. Það sem meira er þá var fórnarlambið lítilfjörlegur jarðfræðingur! Það var svo sem allt í lagi, hann var hvort eð er að vinna með Rússunum.
Bond, þessi smjörgreiddi, smeðjulegi kvennhatari var sem sagt hetjan mín. Ekki misskylja mig að ég hafði og hef mjög gaman af James Bond en að líta upp til þessa manns... húffum púff.
Eitt er það þó sem James kallinn má eiga. Hann fylgir femínískri þróun í hvívetna og hefur það kvennfólk sem hann hefur áhuga á bæði þroskast og orðið harðara í gegnum tíðina. Í upphafi voru þetta bjargarlausar húsmæður sem hentu sér í fang hr. Bonds og sváfu hjá honum við fyrsta tækifæri. Voru sem sagt algjörar hórur. Nú á síðari tímum hefur þróunin hinsvegar leitt til þess að kellurnar eru harðari, gáfaðari og standast Bond jafnvel snúning, svona framan af myndunum alla vega. En eitt breytist ekki. Þær eru allar jafn fljótar að sofa hjá honum.
Bond er því allt sem ég vil vera en í senn allt sem ég vil als ekki vera. Hanns stærsti galli er þó að hann er ekki til. Það gerir allan samanburð erfiðan ef ekki vonlausan. Því óska ég eftir fyrirmynd. Eina skilyrðið er að hann verður að vera til. Ég þarf ferðafélaga á leið minni til fyrirheitna landsins. Hver bíður sig fram?

|

september 09, 2004

Lagt af stað

Stundin er núna og dagurinn er í dag. Hér með hefst ferð mín til fyrirheitna landsins. Ég á enn eftir að finna hvar fyriheitna landið liggur, en með hjálp samferðamanna minna er ég hvergi banginn heldur stend í stafni í stormi sem logni.
Þið kunnið að spyrja ykkur sjálf hvert þetta fyrirheitna land er. Því miður get ég ekki svarað ykkur því. Það eina sem ég get gert er að leyfa ykkur að slást með í för.
Ég ætla mér ekki að segja frá daglegum raunum mínum og sigrum. Hef persónulega lítið gaman af því að lesa um drykkjufar annara og skólagöngu. Grámyglulegur hversdagsleikinn er okkur allt um kring og ég hef lítinn áhuga á að sletta honum upp um alla veggi. Þess í stað langar mig að lýsa sýn minni á því sem í kringum mig gerist og hvergi skulu skáldaorðin spöruð. Það kann að slæðast með ein og ein skemmtisaga en þeir sem til þekkja vita að þar verður aðeins um ýkjur að ræða. Hversdagsleiki vel kryddaður ýkjum og mareneraður í hvítum lygum, látinn lyggja milli hluta og sópað undir stól.
Þetta verður ferðasaga mín...

|