Barist við ljónin
Neikvæðni er einhver sá versti löstur sem hægt er að hafa. Þar sem ég er maður margra hugmynda, og ekki eru allar jafn góðar, hef ég fengið minn skerf af bölsýni og neikvæðni. Það eru bestu hugmyndirnar sem eru langsóttar. Draumarnir sem svífa hæst eru bestir og markið sem sett er hæst skilar bestum árangri. Ég veit ekki hvort það er ígrætt í mannsálina að halda aftur af samferðafólki. Oft virðist svo vera og ég sjálfur hef staðið mig að því að þykja hugmyndir kjánalegar vegna þess að þær eru langsóttar og mér sjálfum datt þær ekki í hug. Af hverju er það? Það græðir enginn á neikvæðni og allra síst sá sem henni beitir. Af hverju ekki að hrósa náunganum og af hverju ekki riðja þeim ljónum úr vegi sem hindra för góðra hugmynda í stað þess að væla hversu stór ljónin eru og hversu beittar tennur þeirra eru. Í stað þess að benda á vandamálin, bendum heldur á lausn á þeim.
Kveikjan að þessum pistli mínum eru samræður sem ég átti við félaga mína. Ég er að fara til Thilands næsta vor og langar að ferðast í framhaldi af þeirri ferð. Fara til Kambódíu og upp til Kína eða niður Pólýnesíu og alla leið til Ástralíu. Ég var að reyna að plata þá með en neikvæðnin lak af vörum þeirra. Ekki það að þeim langi ekki að koma með mér, síður en svo. Ferðalagið er of dýrt, er of heitt þarna og of langt þangað. Í stað þess að reyna að komast ódýrt, finna svalari stað og fara ekki alveg jafn langt þá var hugmyndin kæfð í fæðingu. Hræðslan við ljónin bar stríðsmanninn ofurliði. Ekki mig. Ég fer þá bara einn. Ég þarf engan her til að komast til fyrirheitna landsins og hvað þá til Kína. Krossfarinn heldur því för sinni áfram með brugðið sverð og blikandi brynju og engin ljón munu stoppa för mína...
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home