Krossfarinn

Ferðin til landsins helga

ágúst 29, 2007

Þarna kom það

Það síðasta sem þú vilt vera er góður listnemandi.

Sértu ein(n) slíkur þýðir það að þú gerir nákvæmlega það sem kennarinn vill fá og ert þannig ekki að gera neitt frá sjálfum/sjálfri þér.

Í dag var ég slæmur listnemandi og það var æðislegt. Kennaranum fannst það ekki...

|

Annar dagur að kveldi kominn

Túrbó-ofvirki danskennarinn okkar kenndi okkur frekar flókna post-móderníska dansrútínu í dag. Ég var eins og Hemmi Gunn í Taílandi: úti á þekju í tómu rugli. Þarna stóð ég með lærðum dönsurum og reyni að hreyfa mig á með reisn og muna hvaða hreyfing af þeim þúsund sem búið var að fara í gegnum kæmi næst. Ég var ekki að ná þessu en mér til mikillar ánægju var enginn að gera það.

Svo vorum við spurð hvað frelsi væri. Ég reyndi að eyða umræðunni með vandræðalegum athugasemdum.

Það sem ég lærði í dag: Hvergi eru fleiri asnar í heiminum en í Chad. Þá á ég við dýrin.

|

ágúst 27, 2007

Fyrsti dagurinn

Þá er fyrsti dagurinn í skólanum að kveldi kominn. Skemmtilegt fólk, skemmtilegir kennarar og skemmtilegur skóli. Deildin er pínulítil. Það er bara við og annað árið í leikurunum og tveir bekkir í senógrafíu. Það verður ekki tekið inn á næsta ári þannig að þetta er fólkið sem ég mun vinna með. Samferðamenn mínir í leitinni að heilaga gralnum.

Í söngtíma töluðu allir um tákngerfingu óperu en ég hélt að það væri verið að tala um Ophru Winfrey. Ég skildi ekkert hvert fólk var að fara...

|

ágúst 26, 2007

Fyrirheitna landið bíður

Þá er ég lagður af stað í ferðina miklu. Leitin að hinum heilaga gral hefur leitt mig víða en nú finnst mér ég verakominn á rétta slóð. Ég finn það. Ég er kominn til Fredrikstad, gamals virkisbæjar við landamæri fornu erkifjendanna Noregs og Svíþjóðar, þar sem ég mun eyða næstu þremur árum leitar minnar.
Hingað komst ég eftir langt og svefnvana ferðalag. Fimm tíma flug auk ferðalaga til og frá flugvöllum til að komast frá Kanada í nýja heiminum til Íslands, dagur í heimahögunum þar sem grái BMW fákurinn minn gerði allt sem í hans valdi stóð til að skilja ekki við mig, og loks flug til Noregs þar sem ég missti af rútu frá Ósló til Fredrikstad, eða Friðriksstaða eins og ég kýs að kalla bæinn, sökum tímamismuna-ruglings.
Ég komst þó á leiðarenda í heimu lagi og sömuleiðis föggur mínar allar. Íbúðin sem mun verða bækistöðvar mínar næstu mánuðina er afar vel útilátin af plássi en skrautmunir og húsgögn bera þess merki að eigandinn virðist hafa hætt að huga að íbúðalegri framþróun árið 1991 þegar nýöldin náði endanlega tökum á honum. Afríkugrímur, myndir af saxafónum, tíbetísk veggsjöl í bland við ömmubollastell og pastellitt klósett. Ég fæ fyrrverandi barnaherbergið, með fyrirtaks skrifpúlti, koju, bleikum gluggatjöldum og Moglí ljósi. Það þarf vart að taka fram að framkvæmdir eru fyrirhugaðar.

Á morgunn hefst námið, leit mín. Þrjú ár í leiklistaskóla.

|