Krossfarinn

Ferðin til landsins helga

desember 30, 2004

Nýtt ár

Ég er búinn að vera latur að blogga undanfarið enda jólatíð og hef ég mun þarfari hluti að gera en að blogga eitthvað út í loftið. Ég vil samt óska ykkur gleðilegs árs og þakka fyrir það sem sér nú fyrir endan á.

|

desember 17, 2004

Prófraun lokið

Ég er lifandi sönnun þess að maður þarf hvorki að eiga bækur né mæta í tíma til að ná öllum þeim prófum sem lögð eru fyrir mann. Þetta vil ég þakka þeim tveimur kostum sem ég hef í mínu vopnabúri. Límheila og hæfileikanum að bulla. Ég hef reyndar notað síðari hæfileikann töluvert meira í þessum prófum en oft áður. En ég lofa, eins og alltaf, að leggja harðar að mér á næstu önn...

Maður fékk 5 mánuða skilorðsbundinn dóm fyrir að misnota 5 ára stelpu og 150.000 í sekt. Ríkisstjórnin kaupir Sigmund teikningar fyrir 18 milljónir á meðan ungis sjálfstæðismenn vilja leggja niður listamannalaun. Rugludallinum Fischer var boðið hæli en bara ef Bandaríkjamenn vilja ekki fá hann fyrst. Já, það eru yndislega íslensk jól í uppsiglingu með nóg að skammast út í og nóg að röfla yfir.

Að lokum við ég minna á allra síðust sýningar á bestu leiksýningu á Íslandi í dag; Þú veist hvernig þetta er. Óla forseta fannst gaman, bæði Þjóð- og Borgarleikhússtjóra fannst frábært og sauðsvartur almúginn ræður sér vart fyrir kæti. Gagnrýnendur halda ekki vatni og fjölskyldumeðlimir eru sáttir.
Síðustu sýningar eru 18. og 19. des kl. 20.00 að Hólmaslóð 2. Kostar bara 1000 kall og sýningin er ekki 3 tímar.

|

desember 13, 2004

Jólaskelfir kemur til byggða

Jólasveinarnir eru ekki 13. Þeir eru orðnir 14. Sá fjórtándi hefur reyndar lengi verið til, en við bara aldrei haldið sértaklega mikið upp á hann. Kannski engin furða. En uppgangur hans er slíkur að nú er hann orðinn einn áhrifamesti jólasveinninn. Ég er að tala um Jólaskelfi. Jólaskelfir hagar sér ekki eins og hinir jólasveinarnir. Hann gefur ekki í skóinn, gerir engum góðlátlegan grikk og heldur ekki uppá börn. Hann kemur langt á undan bræðrum sínum til byggða og þá í þeim tilgangi að hengja upp staka jólaauglýsingu, svona rétt til að minna okkur á að jólin séu aðeins eftir tvo mánuði. Þá strax byrja húsmæður að fá ólundar tilfinningu í magann og byrja að undirbúa eitt og annað langt fyrir tímann.
Jólaskelfir færist allur í aukana eftir því sem nær dregur jólum og dreifir út stressi og jólaörvæntingu. Fjölskyldufeður fara yfir um, einstæðar mæður brotna saman og efnalitlir einstaklingar trítla út í banka til að fá framlengingu á yfirdrættinum. Síðustu dagarnir fyrir jól eru erfiðastir. Bakstur, skreytingar og þrif. Pirringur og örvænting. Ég hef hinsvegar komist að því gegnum ýmsar rannsóknir og eigin reynslu að jólin koma hvernig sem við eru stemmd. Hvort steikin sé komin í ofninn eða rykið komið undir teppi skiptir engu máli. Ég skil því ekki allt stressið. Ég reyndar er svo heppinn að vera svo guðdómlega kæruslaus að nenna ekki að gefa gjafir, nema nánustu ættingjum, og hvað þá senda jólakort. Málið er að jólin eru frábær, hver sem boðskapur þeirra kann að vera. Fólk einfaldlega virðist oft gleyma hvernig á að njóta þeirra og sérstaklega aðdraganda þeirra.

Jólaskelfir er kominn til byggða og því vil ég segja að hvort sem þið viljið hlusta á jólalög um Jesús eða jólasveininn, setjast niður með Hanky the christmas poop eða halda upp á ljósahátíð óska ég ykkur gleðilegs aðdraganda jóla.

|

desember 06, 2004

Andfélagslegur dvali.

Ég hef ekkert að segja. Ég hef engar skoðanir og ber enga ábyrgð. Ég tek ekki afstöðu og læt það mig engu máli skipta. Ég er ekki aktivisti og ég er ekki hugsjónamaður. Ég nenni varla að lesa blöðin og hvað þá að ræða þjóðmálin. Ég er í dvala.
Þetta gerist einu sinni á ári á hverju ári. Þegar jólapróf ganga um garð fær allt annað að sytja á hakanum. Skammdegið herðir kverkartakið og það er ekki laust við að sálin fari að svitna. Ég hef aldrei skilið af hverju íslenska þjóðin þróast ekki í þá átt að leggjast í dvala. Í nóvember myndu allir fara í Svefn og heilsu og kaupa sér notalegt rúm og þykka sæng. Kaupa fullt af fituríkum mat, snakki og svoleiðis, og borga vatsreikninginn 6 mánuði fram í tímann. Svo er ekkert að vanbúnaði að skríða upp í rúm, einn/ein eða með einhverjum til að kúra með, og láta veturinn líða hjá í draumamóki. Vakna einu sinni á dag í ca. 15 til 20 mín. til að pissa og fá sér eitthvað í gogginn. Það væri hægt að gæjast út um svefnherbergisgluggann til að athuga hvort vorið væri komið (en maður veit aldrei hvenær það kemur á Íslandi) og ef vindurinn nauðar og snjór fellur dregur maður sængina alla leið upp fyrir haus og fer aftur að sofa.
Það er hætt við því að maður sé óttalega ræfilslegur eftir vetrarlanga legu. Allir vöðvar slappir og engin fita á kroppnum. En er það ekki í tísku í dag? Heróín lúkkið. Þá gæti maður líka eytt sumrinu í lystisemdir eins og að safna vetrarforða. Sumarið verður miklu skemmtilegra og viðburðarríkara því við ættum enn eftir að halda jól og páska, nú og fagna áramótum. Ég sé þessu ekkert til fyrirstöðu. Þau störf sem þurfa að vinnast að vetri til geta verið í höndum erlandra verkamanna, verkamanna sem ekkert hafa að gera þegar eyðileggingu Kárahnjúka líkur.
Fyrir þá sem íhaldsamir eru er líka hægt að fresta dvalanum fram yfir jól. Þá fara einungis köldustu og leiðinlegustu mánuðurnir í dvala og jólinn er fyrirtaks tími til að safna forða. Hugsið út í það. Gerist eitthvað skemmtilegt í janúar og febrúar annað en örfáir afmælisdagar mis skemmtilegs fólks (Torfi þú ert skemmtilegur)? Hvað gerist þá sem vert er að vakna fyrir?
Ég veit það ekki, rétt eins og ég veit ekki hvort Halldór Laxness var fjöldamorðingi.
Nei, ég er farinn að sofa. Vekið mig þegar lóan kemur.

|

desember 01, 2004

Lífsins ólgusjór

Hjalti bannaði mér að blogga um lífssins ólgusjó. Hann er klár strákur svo ég ætla að fara að ráðum hans.

|