Andfélagslegur dvali.
Ég hef ekkert að segja. Ég hef engar skoðanir og ber enga ábyrgð. Ég tek ekki afstöðu og læt það mig engu máli skipta. Ég er ekki aktivisti og ég er ekki hugsjónamaður. Ég nenni varla að lesa blöðin og hvað þá að ræða þjóðmálin. Ég er í dvala.
Þetta gerist einu sinni á ári á hverju ári. Þegar jólapróf ganga um garð fær allt annað að sytja á hakanum. Skammdegið herðir kverkartakið og það er ekki laust við að sálin fari að svitna. Ég hef aldrei skilið af hverju íslenska þjóðin þróast ekki í þá átt að leggjast í dvala. Í nóvember myndu allir fara í Svefn og heilsu og kaupa sér notalegt rúm og þykka sæng. Kaupa fullt af fituríkum mat, snakki og svoleiðis, og borga vatsreikninginn 6 mánuði fram í tímann. Svo er ekkert að vanbúnaði að skríða upp í rúm, einn/ein eða með einhverjum til að kúra með, og láta veturinn líða hjá í draumamóki. Vakna einu sinni á dag í ca. 15 til 20 mín. til að pissa og fá sér eitthvað í gogginn. Það væri hægt að gæjast út um svefnherbergisgluggann til að athuga hvort vorið væri komið (en maður veit aldrei hvenær það kemur á Íslandi) og ef vindurinn nauðar og snjór fellur dregur maður sængina alla leið upp fyrir haus og fer aftur að sofa.
Það er hætt við því að maður sé óttalega ræfilslegur eftir vetrarlanga legu. Allir vöðvar slappir og engin fita á kroppnum. En er það ekki í tísku í dag? Heróín lúkkið. Þá gæti maður líka eytt sumrinu í lystisemdir eins og að safna vetrarforða. Sumarið verður miklu skemmtilegra og viðburðarríkara því við ættum enn eftir að halda jól og páska, nú og fagna áramótum. Ég sé þessu ekkert til fyrirstöðu. Þau störf sem þurfa að vinnast að vetri til geta verið í höndum erlandra verkamanna, verkamanna sem ekkert hafa að gera þegar eyðileggingu Kárahnjúka líkur.
Fyrir þá sem íhaldsamir eru er líka hægt að fresta dvalanum fram yfir jól. Þá fara einungis köldustu og leiðinlegustu mánuðurnir í dvala og jólinn er fyrirtaks tími til að safna forða. Hugsið út í það. Gerist eitthvað skemmtilegt í janúar og febrúar annað en örfáir afmælisdagar mis skemmtilegs fólks (Torfi þú ert skemmtilegur)? Hvað gerist þá sem vert er að vakna fyrir?
Ég veit það ekki, rétt eins og ég veit ekki hvort Halldór Laxness var fjöldamorðingi.
Nei, ég er farinn að sofa. Vekið mig þegar lóan kemur.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home