Krossfarinn

Ferðin til landsins helga

desember 13, 2004

Jólaskelfir kemur til byggða

Jólasveinarnir eru ekki 13. Þeir eru orðnir 14. Sá fjórtándi hefur reyndar lengi verið til, en við bara aldrei haldið sértaklega mikið upp á hann. Kannski engin furða. En uppgangur hans er slíkur að nú er hann orðinn einn áhrifamesti jólasveinninn. Ég er að tala um Jólaskelfi. Jólaskelfir hagar sér ekki eins og hinir jólasveinarnir. Hann gefur ekki í skóinn, gerir engum góðlátlegan grikk og heldur ekki uppá börn. Hann kemur langt á undan bræðrum sínum til byggða og þá í þeim tilgangi að hengja upp staka jólaauglýsingu, svona rétt til að minna okkur á að jólin séu aðeins eftir tvo mánuði. Þá strax byrja húsmæður að fá ólundar tilfinningu í magann og byrja að undirbúa eitt og annað langt fyrir tímann.
Jólaskelfir færist allur í aukana eftir því sem nær dregur jólum og dreifir út stressi og jólaörvæntingu. Fjölskyldufeður fara yfir um, einstæðar mæður brotna saman og efnalitlir einstaklingar trítla út í banka til að fá framlengingu á yfirdrættinum. Síðustu dagarnir fyrir jól eru erfiðastir. Bakstur, skreytingar og þrif. Pirringur og örvænting. Ég hef hinsvegar komist að því gegnum ýmsar rannsóknir og eigin reynslu að jólin koma hvernig sem við eru stemmd. Hvort steikin sé komin í ofninn eða rykið komið undir teppi skiptir engu máli. Ég skil því ekki allt stressið. Ég reyndar er svo heppinn að vera svo guðdómlega kæruslaus að nenna ekki að gefa gjafir, nema nánustu ættingjum, og hvað þá senda jólakort. Málið er að jólin eru frábær, hver sem boðskapur þeirra kann að vera. Fólk einfaldlega virðist oft gleyma hvernig á að njóta þeirra og sérstaklega aðdraganda þeirra.

Jólaskelfir er kominn til byggða og því vil ég segja að hvort sem þið viljið hlusta á jólalög um Jesús eða jólasveininn, setjast niður með Hanky the christmas poop eða halda upp á ljósahátíð óska ég ykkur gleðilegs aðdraganda jóla.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|