Krossfarinn

Ferðin til landsins helga

febrúar 24, 2005

Annríki - andríki

Ég hef verið einkar latur undanfarið að blogga. Ég bara hef svo mikið að gera. Núna á ég t.d. að vera mættur í tíma eftir 2 mín.
Mig langar að auglýsa American diplomacy, sem sýnt er í Borgarleikhúsinu. Þið eigið öll að koma því ég er í því. Málið er ekki flóknara en svo.

|

febrúar 09, 2005

Stúdentar í pólitík pólitíkurinnar vegna

Stúdentapólitík er furðuleg tík. Röskva viðurkennir tengsl sín við vinstri flokka í ,,fullorðins" pólitíkinni en virðist skemmast sín fyrir þau. Vaka neitar öllum ásökunum um tengsl, sem er svipað og ef Davíð Oddsson neitaði tengslum við sjálfstæðisflokkinn. Háskólalistinn virðist bara vera á móti hinum og vilja breita kerfinu og Alþýðulistinn stendur fyrir lítið annað en eyðingu sænskra nytjaskóga í formi tilgangslausra auglýsingabæklinga. Þá er það aðal spurningin hvað skal velja? Stúdentapólitíkin snýst um fólk en ekki lista og ég þekki ekkert af þessu fólki. Ef ég spyr svo þá sem sitja við kynningarborðin vita þeir ekki neitt. Þeir eru í mesta lagi í 16. sæti listans og vita ekki neitt og virðast ekki hafa neinar skoðanir! Þess vegna skila ég auðu. Mér er ekki sama en ég get ekki valið milli fólks sem öll virðast vera í einhverjum leik eða uppeldisbúðum fyrir alþingi. Það er ekkert að því að tengjast stjórnmálaarm í stúdentapólitík. Það er fullkomlega eðlilegt að fólk með svipaðar skoðanir sé í sama flokki í stúdentapólitík og það er fullkomlega eðlilegt að þetta fólk kjosi sama flokkinn í almennum kosningum. Annað væri í raun furðulegt. Baráttumál stúdenta eru vel afmörkuð og takmarkað hversu mismunandi áherslurnar geta orðið. Það sem er hinsvegar ekki eðlilegt er að fólk skammist sín fyrir þessi tengsl og viðurkenni þau ekki. Ég veit ekki hverjum get ég treyst best í stúdentaráði? Ég vona bara að Vaka vinni ekki með eins atkvæða mun...

|

febrúar 03, 2005

Háleitir draumar

Ég nenni einhvern veginn ekki að skrifa svo ég skelli bara smá bút úr lítilli barnasögu sem ég er að vinna í:

Pétur, eða Pési eins og vinir hans kölluðu hann, var bara nokkuð sáttur við lífið og tilveruna. Sérstaklega núna þegar vorið var komið og síðustu skóladagarnir að renna sitt skeið. Hann var vanur að fara í sveitina á vorin að hjálpa afa og ömmu. Taka á móti lömbunum. Síðasta sumar hafði afi sagt að næsta sumar yrði Pétur nógu stór til að keyra traktorinn, með afa að sjálfsögðu. Þess vegna var Pési einkar spenntur fyrir þessu sumri. Hann gæti líka haldið áfram að kenn Snotru hundatrix, sem er mjög undarlegt út af fyrir sig þar sem Snotra var köttur. Það var ekkert hægt að kenna Skrámi þrátt fyrir að hann væri hundur. Hann var gamall og gigtveikur og nennti aldrei að hreyfa sig. Alla vega. Pési var í virkilega góðu skapi þennan blíðviðris dag þegar hann trítlaði heim úr skólanum. Það var bara vika eftir af skólanum og hann sá traktorinn fyrir sér í hillingum. Hann labbaði framhjá íþróttavellinum, framhjá bakaríinu og framhjá leikhúsinu. Þegar hann kom að húsi Tóbíasar gamla átti hann að fara yfir götuna. En það fer ekki alltaf allt eins og maður ætlar sér. Slys gerast og mistök eiga sér stað og þau bitna jafnt á réttlátum sem ranglátum. Þennan dag sá Pési nokkuð sem hann átti ekkert að sjá. Þegar hann staðnæmdist fyrir framan húsið hans Tóbísar gamla sá hann mann í svartri hempu með hettu koma út úr húsinu. Hann virtist vera að flýta sér mikið. Það var ekkert skrítið að sjá fólk koma til og fara frá húsinu hans Tóbíasar. En það sem var svo skrítið við þennan mann var að hann var með slátturvél í eftirdraginu. Græna slátturvél með gulan mótor. Pési var góður vinur hans Tóbíasar og fannst hann því knúinn til að spyrja þennan dularfulla mann hvað hann hefði verið að gera með slátturvél inni hjá Tóbíasi.

|