Góðar stundir - ekki svo góðar stundir
Það er meira hvað maður getur átt margar mömmur allt í einu. En ætli það sé ekki merki um ást þegar nöldrað er í manni þannig að ég get lítið annað en skammast mín fyrir leti mína.
Til að reyna að bæta ykkur þetta upp ætla ég að stikla á stóru og segja frá því sem á daga mína hefur drifið síðustu vikur (og jafnvel mánuði) í ótrúlega sjálfhverfum og leiðinlegum annál:
Ég hitti rosa sæta stelpu og hvarf inn í dularfulla svarthol sambanda.
Ég fór að hætta að nenna að gera það sem kennararnir sögðu mér að gera og fór að ganga miklu betur í skólanum.
Ég kóperaði tússmálverk sem Robert Wilson gerði fyrir skólann og hangir í anddyrinu. Ég setti málverkið mitt yfir hans og enginn tók eftir því í 10 daga. Svo var það rifið niður af stjórn skólans.
Við buðum öllum leiklistanemendum í Noregi í heimsókn og héldum partý og sýndum hvað við vorum að gera og sáum hvað aðrir voru að gera. Við unnum, engin spurning.
Ég sótti um skiptinám í Glasgow.
Ég gerði gjörning um Harry, barþjóninn á fínasta barnum í bænum. Hann er frá Singapúr og hefur verið barþjónn í 22 ár. Gjörningnum var almennt vel tekið, nema hvað kennarinn reif blaðsíðuna sem hann hélt á í búta á meðan hann horfði til skiptis á mig og gólfið.
Ég fór til Berlínar og uppgötvaði að heimurinn er ekki horfinn, hann sést bara ekki frá Fredrikstad. Þar uppgötvaði ég líka að sálfræði-drama-leikhús er dautt. Einhver þarf að segja Íslendingum það, Jón Páll þarf aðstoð.
Ég skreið aftur upp úr svartholinu.
Nú erum við að vinna grískan harmleik, mér til mikils ama. Þrátt fyrir að um poppaða nútímavæðingu sé að ræða þá hef ég mínar efasemdir. Er ekki búið að segja þessar sögur nógu oft? En ég hef fulla trú á leikstjóranum þannig að þetta gæti orðið eitthvað gott. Frumsýnt 7. júní, áhugasamir velkomnir.
Er að ákveða hvert á að fara í mánuð er skólanum líkur um miðjan júní. Einhverjar uppástungur?
Já, og kötturinn sem var alltaf í íbúðinni minni dó. Nágrannarnir kvörtuðu (eins og norsurum er tamt) og leigusalinn (hann átti köttinn) lét svæfa hann. Köttinn, ekki nágrannann.
Ég vona að þetta svali forvitni ykkar, kannski að næsta pistils verði ekki jafn lengi að bíða og þessa og kannski að hann verði ögn meira spennandi.
Þangað til, góðar stundir.
5 Comments:
Nú varstu duglegur strákur Tryggvi minn og ætlar mamma að gefa stráknum sínum nammi á laugardaginn.
Hugmynd að stað: komdu heim á klakann og knúsaðu okkur vini þína, skiptumst á sögum í vesturbæjarlauginni, grillum pylsur í sólinni og drekkum ávaxtasafa með.
...fyrir utan klakann, sweet barcelona!
Gott þú ert kominn úr svartholinu þó sum svarthol séu góð eins og það sem var í Rauðagerði! Koddu bara heim og leiktu fyrir okkur i sumar!
Eg vildi ad nàgranninn hefdi verid svaefdur i stadinn fyrir kottinn.
Aumingja kisi.... ég myndi fara að gráta ef ég væri þú. Megi þessir Nossara djöflar skammast sín, megi kötturinn ganga aftur og hefna fyrir ósanngirni nágrannanna. Annars er ég ánægð með að lesa loks bloggfærslu frá stráknum. Sérstaklega ánægð með uppátæki þitt varðandi Wilson málverkið!
Uppástunga fyrir ferðalög í sumar: Eins og allir hinir segja: Ísland! (sem er ekki best í heimi, en þar verð ég). Fleiri staðir koma ekki til greina (nema þá Glasgow í ágúst...)
Sidcup er tvímælalaust sumaráfanstaðurinn í ár ;o)
Hitabetiskveðjur frá Tinnu
Skrifa ummæli
<< Home