Krossfarinn

Ferðin til landsins helga

mars 02, 2008

Afsakið! Afsakið!


Ég gerði mér ekki grein fyrir því að einhver væri virkilega að lesa bloggið mitt. En ég er hér til að þjóna svo gjörið svo vel:

Stundum er maður heppinn, og stundum er maður óheppinn. Síðasta föstudag var ég óheppinn. Eftir mikið streð og endalausa forritun var komið að því að ég og Ingo bekkjafélagi minn sýndum afrakstur námskeiðs þar sem okkur var kennt að mynda, klippa og notast við myndvarpa og sjónvörp á sviði. Þar sem ég hef allt of hátt sjálfsálit og óhóflega mikinn metnað (eins og Ingo) ákváðum við að hnýta bagga okkar ekki sömu hnútum og samferðamenn okkar. Þess í stað notuðum við franska rennilása. Afskaplega þægilegt en mjög óáreiðanlegt.
Við ákváðum að setja mig á svið, hafa tvo skjái sitt hvorum megin við mig þar sem "live-feed" af mér væri í gangi þar sem bætt væri á mig vængjum og ég settur í mismunandi bakgrunn. Svo ætluðum við að taka upp "live-feed" og spila það í hringi svo allt í einu væri ég að gera eitthvað allt annað en myndirnar og svo framvegis (ég um mig frá mér til mín). Ég lék þrjá mismunandi persónur og allt eftir því hvernið ég snéri þá snéri bara ein mynd (eða ég sjálfur) fram í áhorfendasalinn. Ingo ætlaði að skratza hljóðið og myndina og leika sér með tæknina fram og til baka. Hljómar flókið, enda er það það.
Til að setja á mig vængi þarf mikla forritun og þar sem tæknihlið skólans er í öruggum höndum pönk-rokkarans/alkahólistans/útigangsmannsins/sjónræns listamannsins Ulf, var það hægara sagt en gert. Forritið sem við notuðum var bara til í endanlegri útgáfu á einni bilaðri tölvu, svo við notuðum prufu-útgáfu sem ekki var hægt að vista í.

Tölvan fraus í sjötta skiptið fimm mínútum fyrir sýninguna. Í hvert skipti misstum við alla forritunina, sem tók um 2-3 tíma að framkvæma. Allt sem eftir stóð var ég í hvítum leðurjakka og eitt sjónvarp með talandi merði.
En sýningin heldur áfram svo ég fór á svið og framkvæmdi performanse sem kallaðist ,,Minning um performance" og var honum almennt vel tekið.
Ég er hinsvegar ennþá í sárum því þarna tel ég eina tækifæri mitt að leika vængjaðan prins í hvítum leðurjakka, hvítum buxum og hvítum leðurskóm hafi horfið á vit fortíðarinnar. En í staðinn fékk ég einn innilegasta hlátur lífs míns þegar ég sá svipinn á Ingo þegar tölvan fraus.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|