Krossfarinn

Ferðin til landsins helga

september 29, 2004

Nýtt líf í gömlum heimi

Eftirfararandi er upptaka af lýsingu íþróttafréttamanns á síðasta sunnudagseftirmiðdegi í lífi mínu:
Þetta er alveg ótrúlegt. Spennan er rafmögnuð og andrúmsloftið lævi blandið. Áhorfendur hafa komið sér vel fyrir í þessu barnaafmæli Ragnheiðar litlu en það leynist engum að athyglin beinist öll að leikmanni nr. 3 í 3. kynslóð, Guðrúnu Ernu. Fyrr í dag, nánar tiltekið 12.30, lék Guðrún þann leik að fara upp á fæðingadeild. Það var ekki í fyrsta sinn sem hún fór þá leið í gegnum vörnina en fyrri atlögur voru bæði bitlausar og ómarkvissar og runnu á endanum út í sandinn. Þess vegna binda áhorfendur miklar vonir við innkomu Skúla og að það verði til að hleypa henni kapp í kinn og að í þetta skiptið færi hún alla leið....
...Hér virðast allir liðsmenn og áhorfendur vera mættir en þó vanntar... bíðið við. Síminn pípir og Lára tekur hann upp. Stúkan dettur í dúnalogn og við bíðum spennt!... 4 cm. í útvíkkun! Já þetta er ótrúlegt. Guðrún er ekki af baki dottin. Þessi ungi og efnilegi leikmaður bregst hvorki áhorfendum né liðsmönnum sínum og skilar hér sannfærandi 4 cm. Áhangendur hennar eru að vonum ánægðir en þeir vita að það er enn löng leið fyrir höndum svo þeir eru fljótir að grípa aftur til kaffibollans og barbí kökunnar...
...Spennan magnast enn og er orðin nær óbærileg...
...Nú hefur ekkert frést í langan tíma og áhorfendur teknir að týnast heim. Guðrún virðist ekki ætla að fylgja eftir þessari góðu byrjun en hún... nei síminn pípir!,,, Það eru 7 cm í útvíkkun! Guðrún virðist ætla að fara þetta á fáum stoppum og skjóta þar öðrum keppendum, bæði eldri og reyndari, ref fyrir rass. Nú þurfum við væntanlega ekki að bíða þess lengi að hún fari alla leið. Og jú, nú pípir hann aftur! Það eru 10 CM! Ótrúlegur árangur. Ég hef ekki upplifað slíka spennu síðan Vala Flosa vann ólympíubrons. Þvílíkur árangur. Þvílíkur leikmaður. Þvílík snilld...
...Það virðist hafa hægt á þessu hjá stelpunni enda er þessi síðasti hjalli geysi erfiður. Skemmst er að minnast þess er Hollendingar stóðu með pálman í höndunum á Evrópumótinu ´86 en klúðruðu því svo á lokasprettinum. Ég hef enga trú á að það sama gerist hér í dag en áhorfendur virðast ekki vera á sama máli. Þeir eru komnir í yfirhafnir og farnir að tínast heim enda klukkan langt gengin í átta...
...Tryggvi sjálfur er kominn í jakkann og þá er fokið í flest skjól. Þetta er búið dömur og herrar! Tryggvi er á leið út og þá hefur feita konan sungið! Þetta var nálægt en enginn vindill! Þetta er sorglegt því þetta leit svo vel út á tímab... bíðið... Síminn var að pípa!... Erum við að verða vitni að ógleymanlegu augnabliki í sögunni. Lára tekur upp símann og opnar skilaboðin. Tryggvi er kominn aftur inn í stofuna... ÞAÐ ER STELPA!!!!... Það er stelpa. Þetta er ótrúlegt! Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins! Áhorfendur fagna sem óðir væru og liðsmenn stíga trylltan sigur dans (hér byrjaði "Chariots of fire" að óma í hátalarakerfinu). Guðrún hefur skráð sig á sögubækurnar og gert Ernu Kolbeins að langömmu í leiðinni. Hverjum hefði dottið þetta í hug. Eftir alla þessa baráttu og allan þennan tíma. Já það skal aldrei afskrifa nokkurn þann sem í æðum sínum ber Kolbeins blóð! Guðrúnu hefur tekist hið ómögulega og slegið öll met. Hún kom sá og sigraði. Þvílíkur leikmaður!
Við erum komin langt yfir tímann og verðum því að kveðja. Logi kemur með fréttirnar hér rétt á eftir en við endum þetta á því að óska öllum til hamingju, á þá sérstaklega Guðrúnu, með þennan ótrúlega árangur! Veriði sæl.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|