Lafði Lúna
Jæja, þá er inngangurinn að jólasögunni minni kominn á netið. Þið finnið söguna á
www.lafdiluna.blogspot.com
Sagan sjálf hefst svo 1. desember.
Ferðin til landsins helga
Jæja, þá er inngangurinn að jólasögunni minni kominn á netið. Þið finnið söguna á
www.lafdiluna.blogspot.com
Sagan sjálf hefst svo 1. desember.
Þar sem við erum að gera verkefni með umhverfisástandið sem útgangspunkt settumst við bekkurinn niður í gær og horfðum á The Inconvenient truth. Al Gore fer þar mikinn til að bjarga plánetunni með staðreyndum í bland við tilfinningavellu.
Maður verður að virða manninn fyrir framtakið. Hann er augljóslega afskaplega klár því hann tekur allt það sem virkað hefur í Ameríku, píanótónlist undir myndum af fallegri náttúru, búgarðinn heima, amerísku gildin, og snýr þeim við og ræðst á þá sem hafa notað þessa tækni svo lengi. Hún er einfaldlega frábær áróðursmynd um mikilvægt málefni.
Fyrir þá sem búa hérna megin Atlantshafsins kemur fátt á óvart í myndinni og þegar hann telur upp sem helstu afrek hins vestræna heim að hafa komist til tunglsins ásamt því að hafa sigrað kommúnismann þá er ekki laust við að maður brosi út í annað.
Svo er myndin víst orðin úreld. Einhverjar staðreyndir hafa verið leiðréttar svo til dæmis í Bretlandi má ekki sýna hana í skólum án þess að minnast á þessar breytingar áður en myndin er sýnd.
Nóg um það. Það eina sem ég gat hugsað um eftir að hafa horft á myndina, skoðaða fjöldann allan af gögnum á netinu, rætt þessi mál fram og til baka í viku, er hvernig geta Húsvíkingar varið þá skammsýni sína og eigingirni að vilja fá álver?
Ég fór í bíó á sunnudagskvöldið og sá Superbad. Það var upplifun. Ég er enn að melta með mér hvort þessi mynd sé frábær eða ömurleg. Hallast frekar að fyrri kostinum. Hún er svo röng, svo pólitísk röng að það er gull fallegt. Hetjurnar eru einhverjar mestu andhetjur sem ég hef séð á hvíta tjaldinu og þegar helmingur myndarinnar er liðinn spyr maður sig af hverju maður haldi með þessum sauðum, maður veit að þeir eru aðal hetjurnar en af hverju?
Sjón er sögu ríkari. Get mælt með þessari mynd fyrir þá sem hafa gaman að því að spyrja sig í bíó: Hvað er að gerast?
Annars vorum við í skólanum að byrja á síðasta verkefni okkar fyrir jól. Devised verkefni um umhverfismál. Anders bekkjafélagi minn lét okkur vita af skemmtilegri staðreynd. Norðmenn eyða nægilega miklum pening í helgarfylleríið sitt til að fæða sex milljónir manna yfir helgina.
Maðurinn skrifaði furðulegustu unglingabækur síns tíma. Hann er krossfari reykingalögreglunnar. Hann er smjör-pungur hinn mesti og nú hefur hann gefið út einhverja mögnuðustu bók sem komið hefur út á íslenskri tungu. Ég hef reyndar ekki lesið hana en hvernig getur hún verið annað en epískt meistaraverk. Smellið á myndina til að fá að vita meira:
Bókin ætti reyndar að heita: Hvernig Þorgrímur Þráinnson myndi gera konuna þína himingjusama. Frétti af því að hann hefði lesið upp úr bókinni á konukvöldi Blómavals. Veit ekki hvernig það hvetur karlmenn til að kaupa bókina, karlmenn sem eru ekki á konukvöldinu en það stendur einmitt á kápu bókarinnar að hún sé eingöngu fyrir karlmenn.
En hverju sem því líður langar mig að enda þennan póst á sömu tilvitnun og Þorgrímur opnar bók sína með:
You may say I’m a dreamer, but I’m not the only one. ~ John Lennon
Halaði niður nýjustu Radiohead plötunni. Það er hægt að gera fríkeypis á www.radiohead.com, það er að segja maður borgar það sem maður vill fyrir plötuna.
Vissulega gamlar fréttir en mikil snilld engu að síður. Sérstaklega þar sem ég las að meðlimir Radiohead væru búnir að græða miklu meira á þessu fyrirkomulagi en ef þeir hefðu selt plötuna í búð gegnum útgáfufyrirtæki.
Ég borgaði 5 pund fyri hana. Hún er vel 5 punda virði. Áfram Radiohead.
Nú ætla ég að segja eitthvað gott um Norsara. Þeir stoppa alltaf, og þá meina ég alltaf og þó svo þeir þurfi að negla niður og rífa upp malbikið, við gangbrautir. Sé maður í námd við eina slíka munu þeir stoppa.
Annars átti ég frábæran sunnudag í Ósló. Var farinn að halda að allt fólk á mínum aldri værið dáið vegna gróðurhúsaáhrifa en komst að því að þar er bara flutt frá Fredrisktad til Ósló. Eyddi sunnudeginum á Havaí kaffihúsi að spjalla við sænska og norska leiklistanema úr ríkisskólunum. Sá svo sýningu hjá fjórum strákum sem útskrifuðust úr skólanum mínum fyrir nokkrum árum. Frábær sýning.
Gluggaði einnig í bók eftir leikskáldið og leikstjórann David Mamet. Hann hatar method acting og líka leiklistaskóla. Það er margt sem hann hefur til síns máls, en skrif hans eru samt svolítið niðurdrepandi því þau má skilja sem svo að annað hvort sé maður góður leikari eða ekki. Maður geti lítið þjálfað það og ég held að flestir verði að vera ósammála þeirri staðhæfingu. Opnaði samt augu mín hressilega fyrir því að method acting er enginn heilagur sannleikur og hin eina rétta aðferð. Sem betur fer því það er lítil sem engin áhersla á method í skólanum mínum.
Síðastliðnar tvær vikur hafa ég og bekkjafélagar mínir verið í gjörningakúrs (performance art). Afskaplega fróðlegt og nauðsynlegt því bekkjafélagar mínir hafa algjörlega sprungið út. Ég var farinn að spyrja mig hvernig sum þeirra hefðu komist inn í skólann en þeim spurningum var öllum svarað núna á föstudaginn er við sýndum afraksturinn. En ef einhver hefur efast um af hverju ég komst inn í skólann er þeirri spurningu hins vegar enn ósvarað.
Við unnum í fjórum hópum. Einum þriggja manna, einum dúett og tveimur einstaklingsverkefnum. Ég vann einn. Þar sem ég hafði lofað sjálfum mér að gera gjörning á "Degi hinna dauðu," (sem er suður-amerísk hátíð til heiður hinum látnu) um hann Benna lenti ég í því að þurfa að gera tvo gjörninga núna á föstudaginn. Í hafði engan tíma í það og í stað þess að gera tvo lélega gjörninga, einn í kúrsinum og annan á eigin vegum, ákvað ég að steyta þeim saman í einn gjörning. Það var ekki góð ákvörðun því þeir pössuðu engan veginn saman.
Á fimmtudaginn sýndi ég bekkjafélögum mínum og kennaranum (sem líka er skólastjórinn) afraksturinn og í sem stystu máli var ég krossfestur. Ástæðurnar eru ýmsar en fyrst og fremst að maður hefði þurft að þekkja Benna til að skilja gjörninginn. Úr varð að ég hafði hálfan sólahring til að búa til nýtt verk.
Ég endaði á því að tala á sviði í 20 mínútur, sem er ekki alveg það sem er ætlast til af manni í skóal sem kennir "líkamlega leiklist." Ég fékk ekki góða dóma frá kennurunum. Aftur á móti grét helmingurinn af áhorfendunum og margir komu og föðmuðu mig eftir á. Þannig að ég tók við skömmunum frá kennurunum með bros á vör hugsandi ég hvað leiklist er ótrúlega margþætt og hvernig hún getur höfðað mismunandi til fólks. Ég veit að ég gerði eitthvað sem leiklistalega var prump, en á einhverskonar mannlegum grundvelli náði virkilega til þeirra sem þurftu á því að halda.
Ég er ánægur með það og á meðan fólk faðmar mig grátandi þá getur lista-elítan og prófessorarnir átt sig.