Krossfarinn

Ferðin til landsins helga

október 28, 2007

Drauma-dagbókin


Nú held ég draumadagbók í tengslum við gjörninga-kúrs sem ég er í. Mig hefur alltaf dreymt mikið og furðulega svo það er forvitnilegt að skrifa allt niður eða taka upp. Ýmislegt áhugavert er að koma í ljós.
Maður á víst að fara út í smáatriði þegar maður heldur drauma dagbók en þar sem draumarnir mínir eru með svo flóknum söguþræði og uppfullir af táknfræði reynist það mér ómögulegt að skrá þau öll niður. Það er líka mjög erfitt að skrifa niður hálfgerðar ör-sögur með engum línulegum söguþræði, engri lógík og engri eiginlegri uppbyggingu. En ég reyni og ég reyni mikið, því mig dreymir yfirleitt tvo til þrjá drauma hverja nótt. Mig langar að deila einum draumnum með ykkur, einum sem var afskaplega skýr og táknrænn á sinn Disney-hátt:

Ég var lítill strákur að veiða í Þingvallavatni. Ég stóð við vatnsbakkann neðan við gamla bústað afa míns, bústað sem hann er nú búinn að selja. Það var kalt og blautt, eins og svo oft, en ég lét það ekki á mig fá. Ég stóð þarna í drykklanga stund þangað til ég fékk loks fisk. Þegar hann var kominn á land sá ég að hann var bæði stór og myndarlegur, og í raun mun stærri fiskur en ég fékk nokkurn tímann úr Þingvallavatni.
Þegar ég var búinn að losa fiskinn af önglinum og rota hann kastaði ég aftur út. Fljótlega beit annar fiskur á en á meðan ég dró þennan að landi sá ég hræ og beinagrindur gamalla fiska fljóta hjá, falla til botns og hverfa. Þegar ég landaði fiskinum sem bitið hafði á var hann mun minni en sá fyrri, hálfgerður tittur. Ég var vonsvikinn og leit á pabba sem hafði nálgast mig á meðan ég dró að landi. Ég sagði við hann: "Þessi er miklu minni en sá sem ég fékk áðan."
Hann leit á mig til baka og sagði brosandi: "Nei Tryggvi minn. Fiskurinn er ekki minni. Það ert þú sem hefur stækkað og ert nú orðinn fullorðinn."

|

október 17, 2007

www.ffk-wilkinson.com



Þetta er það sjúklegasta sem ég hef séð lengi!

www.ffk-wilkinson.com

Penis envy and castration complex, here we come!

|

október 12, 2007

Hvað og hver er svalur?


Hvað gerir fólk svalt og hvernig á að vera svalur?

Nú vil ég að allir, ef einhverjir eru, sem lesa þetta blogg commenti og bendi mér á svala Íslendinga fyrr og síðar, endilega með rökstuðningi. Ekki fólk sem hefur gert eitthvað svalt heldur fólk sem er svalt, svona eins og Vigdís Finnbogadóttir.
Svalar íslenskar konur óskast sérstaklega.

|

október 11, 2007

"Method-acting"


Stanislavsky kenndi fólki að hætta að leika og vera, Stella Adler sagði fólki að method leika, sem er ennþá meira að vera.

Hvernig skyldi gaurinn sem lék Svamp Sveinsson hafa methodast inn í hlutverkið og verið..?

|

október 09, 2007

Af karlmennsku og friðarsúlum

Ég er í fríi núna í skólanum. Það er svokölluð heimavika og þá fara allir heim til sín að kyssa og kjamsa fjölskylduna. Það er að segja allir nema við villuráfandi sauðirnir sem hafa ekki efni á að fara heim eða eiga ekkert annað heimili.
En við nýtum tímann vel. Ég hef til dæmis aldrei upplifað aðra eins karlmennsku og í gærmorgunn þegar ég og Ingo, hinn snoðaði bóhemistinn, settum upp lítinn lyftingasal í kjallara skólans. Lítið ljós, stór tæki og engar leiðbeiningar. Nú auglýsi ég einungis eftir gömlum plaggötum af Jóni Páli eða Rambó til að setja upp á veggina.
Mér fannst þessi gjörningur okkar skemmtilegur og í fúlustu alvöru þá fann ég fyrir einhverskonar karlmennskuelementi. Málið er hinsvegar að ég gat ekki notið þess almennilega. Skólastýran okkar er mikill femínisti og í hverri viku lætur hún okkur lesa eina fræðigrein og svo er fyrirlestur/umræðutími. Umræðuefnið er alltaf femínismi út frá hinum og þessum, Freud, Foucault og fleiri góðum félögum þeirra. Allt saman voða áhugavert og uppfræðandi en þegar maður sér hversu mikið af hlutverkaskiptingu kynjanna, og þá er ég ekki að tala um þú heima ég vinna, er heimskuleg. Ég vil ekki vita það. Ég vil bara halda áfram í minni blindni og algleymi að vera maskúlinisti. Ég vil vera karlmaður sem finnst voða gaman að vera karlmaður sem er öðruvísi en að vera kvenmaður, en finnsat allt í lagi að kvenmenn séu eins og þeir vilji.

Vígsla friðarsúlunnar fer fram í Viðey í dag. Í beinu framhaldi að femínista-umræðunni mætti færa rök fyrir því að Ono sé að reysa fallusartákn fyrir fallinn eiginmann sinn. Eins konar friðar-fallus.
Ég vildi óska þess að ég gæti orðið vitni að athöfninni. Það er nefnilega eitthvað við það þegar fræga og ríka fólkið gerir eitthvað ótrúlega heimskulegt að vel hugsuðu ráði...

|

október 01, 2007

Ósló - borg ljósanna

Ég eyddi helginni í Ósló. Það voru mikil viðbrigði að koma úr sveitasælunni í Fredrikstad og í stórborgina Ósló. Fredrikstad er nefnilega eins og Keflavík. Allir sem eitthvað er varið í flytja burtu um leið og þeir hafa aldur, ráð og rænu til. Hér eru eintómir hnakkar og auðvitað Eiríkur Hauks. Þess vegna leið mér eins og sveitapilt í sinni fyrstu Reykjavíkurferð árið 1948. Það var allt svo stórt, það voru ljós og það var fólk, fullt af fólki og flest þeirra var ekki með aflitað hár.

Ég sá tvær leiksýningar í Ósló, eina góða og eina slæma. Sú verri innihélt allt sem ég hata í leikhúsi. Karl í kjól, konu að leika karl, leikara að gera eitthvað sem er augljóslega ekki neitt (í þessu tilvika að sópa sömu stráhrúgunni fram og til baka og þegar það gekk ekki lengur fór leikarinn að sópa heyið ofanaf bagga?!!?), og leikara að leika það að þeir syngi illa.
Það er sama með þetta tiltekna verk og svo margt annað. Til dæmis Kók Zero auglýsingaherferðina, Cat-woman bíómyndina og nafnabreytingu N1. Í gegnum hversu marga þurfti hugmyndin að fara áður en hún varð að raunveruleika? Var enginn sem hafði hugrekki og gáfur til að segja: Afsakið strákar, hlustið aðeins á mig stelpur, ég var að velta fyrir mér, hérna, ég veit ekki alveg hvernig ég á að segja þetta, en, þetta er ömurleg hugmynd.
Ég get svo sem skilið að eitthvað heimskulegt komist á svið, smekkur manna er misjafn. En hver er afsökun N1? Hugmyndin hefur þurft að fara þessa leið: starfsmaður auglýsingastofu- millistjórnandi - yfirmaður - eigandi - markaðsstjóri Esso - framkvæmdastjóri - stjórn - eigendur - N1.
Það er til svo mikið af fólki með slæman smekk. Enn ein vitleysan.

|