Krossfarinn

Ferðin til landsins helga

október 28, 2007

Drauma-dagbókin


Nú held ég draumadagbók í tengslum við gjörninga-kúrs sem ég er í. Mig hefur alltaf dreymt mikið og furðulega svo það er forvitnilegt að skrifa allt niður eða taka upp. Ýmislegt áhugavert er að koma í ljós.
Maður á víst að fara út í smáatriði þegar maður heldur drauma dagbók en þar sem draumarnir mínir eru með svo flóknum söguþræði og uppfullir af táknfræði reynist það mér ómögulegt að skrá þau öll niður. Það er líka mjög erfitt að skrifa niður hálfgerðar ör-sögur með engum línulegum söguþræði, engri lógík og engri eiginlegri uppbyggingu. En ég reyni og ég reyni mikið, því mig dreymir yfirleitt tvo til þrjá drauma hverja nótt. Mig langar að deila einum draumnum með ykkur, einum sem var afskaplega skýr og táknrænn á sinn Disney-hátt:

Ég var lítill strákur að veiða í Þingvallavatni. Ég stóð við vatnsbakkann neðan við gamla bústað afa míns, bústað sem hann er nú búinn að selja. Það var kalt og blautt, eins og svo oft, en ég lét það ekki á mig fá. Ég stóð þarna í drykklanga stund þangað til ég fékk loks fisk. Þegar hann var kominn á land sá ég að hann var bæði stór og myndarlegur, og í raun mun stærri fiskur en ég fékk nokkurn tímann úr Þingvallavatni.
Þegar ég var búinn að losa fiskinn af önglinum og rota hann kastaði ég aftur út. Fljótlega beit annar fiskur á en á meðan ég dró þennan að landi sá ég hræ og beinagrindur gamalla fiska fljóta hjá, falla til botns og hverfa. Þegar ég landaði fiskinum sem bitið hafði á var hann mun minni en sá fyrri, hálfgerður tittur. Ég var vonsvikinn og leit á pabba sem hafði nálgast mig á meðan ég dró að landi. Ég sagði við hann: "Þessi er miklu minni en sá sem ég fékk áðan."
Hann leit á mig til baka og sagði brosandi: "Nei Tryggvi minn. Fiskurinn er ekki minni. Það ert þú sem hefur stækkað og ert nú orðinn fullorðinn."

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er klárlega fyrir "velgengni á vinnustað"

28. október 2007 kl. 15:30  
Anonymous Nafnlaus said...

Það snjóaði líka meira í gamla daga. Snjóskaflarnir náðu upp undir þakið og ég óð hnédjúpan snjó í skólann. Svo var líka oft frí í skólanum vegna brjálaðs veðurs og ófærðar og nokkrum sinnum var okkur skilað heim í björgunarsveitarbíl með blikkandi ljósum. Þetta gerist ekki lengur og Pabbi segir bara við mig að ég hafi einfaldlega stækkað og fullorðnast og þess vegna snjói ekki og björgunarsveitarbíllinn standi kjurr.

Ósanngjarnt!

28. október 2007 kl. 15:49  
Blogger Finnur Guðmundarson Olguson said...

Þetta er klárlega fyrir því að pabbi þinn muni eiga væmna stund með þér við veiðar.

11. nóvember 2007 kl. 00:36  

Skrifa ummæli

<< Home

|