Ósló - borg ljósanna
Ég eyddi helginni í Ósló. Það voru mikil viðbrigði að koma úr sveitasælunni í Fredrikstad og í stórborgina Ósló. Fredrikstad er nefnilega eins og Keflavík. Allir sem eitthvað er varið í flytja burtu um leið og þeir hafa aldur, ráð og rænu til. Hér eru eintómir hnakkar og auðvitað Eiríkur Hauks. Þess vegna leið mér eins og sveitapilt í sinni fyrstu Reykjavíkurferð árið 1948. Það var allt svo stórt, það voru ljós og það var fólk, fullt af fólki og flest þeirra var ekki með aflitað hár.
Ég sá tvær leiksýningar í Ósló, eina góða og eina slæma. Sú verri innihélt allt sem ég hata í leikhúsi. Karl í kjól, konu að leika karl, leikara að gera eitthvað sem er augljóslega ekki neitt (í þessu tilvika að sópa sömu stráhrúgunni fram og til baka og þegar það gekk ekki lengur fór leikarinn að sópa heyið ofanaf bagga?!!?), og leikara að leika það að þeir syngi illa.
Það er sama með þetta tiltekna verk og svo margt annað. Til dæmis Kók Zero auglýsingaherferðina, Cat-woman bíómyndina og nafnabreytingu N1. Í gegnum hversu marga þurfti hugmyndin að fara áður en hún varð að raunveruleika? Var enginn sem hafði hugrekki og gáfur til að segja: Afsakið strákar, hlustið aðeins á mig stelpur, ég var að velta fyrir mér, hérna, ég veit ekki alveg hvernig ég á að segja þetta, en, þetta er ömurleg hugmynd.
Ég get svo sem skilið að eitthvað heimskulegt komist á svið, smekkur manna er misjafn. En hver er afsökun N1? Hugmyndin hefur þurft að fara þessa leið: starfsmaður auglýsingastofu- millistjórnandi - yfirmaður - eigandi - markaðsstjóri Esso - framkvæmdastjóri - stjórn - eigendur - N1.
Það er til svo mikið af fólki með slæman smekk. Enn ein vitleysan.
1 Comments:
Ég er viss um að KFC borgaði fyrir nýja nafnið. Svo þeir gætu gert auglýsinguna sem endar svona:
" Enn einn KFC"... ömurlega auglýsing.
Skrifa ummæli
<< Home