Krossfarinn

Ferðin til landsins helga

september 01, 2007

Pan-skandínavískir menningaárekstrar

Í lok hvers mánaðar spjallar hver og einn nemandi við yfirmann deildar sinnar um hvernig námið gangi. Þá er nemendum einnig bent á hvað þeir séu að gera rétt og hvað megi bæta. Í dag voru fyrstu slíku fundirnir og virðast kennararnir vera almennt ánægðir með mig. Nema ég þarf að teygja. Alla daga og alltaf. Þau lögðu mikla áherslu að ég teygði því þrátt fyrir að ég sé ekki stirðasti maður í heimi lít ég út eins og viðarplanki við hliðina á öllum dönsurunum.

Svo lenti ég í fyrsta skandínavíska menningarárekstrinum mínum. Við vorum að vinna verkefni, ég og tveir aðrir leikaranemar og tveir sviðsmyndanemar. Við áttum að gera lítinn performans og búa til litla sviðsmynd með örfáum hlutum. Við vorum í svörtu leikhúsi, blackboxi, en notuðum bakvegg. Á honum voru tveir sjúkrakassar, stórt rautt veggspjald með öryggisreglum og slökkvitæki. Það var lítið mál að hylja veggspjaldið með öðru svörtu spjaldi. Þegar kom að því að færa sjúkrakassana og slökkvitækið var leikfélögum mínum hinsvegar nóg boðið.
Samkvæmt skandínavíska analismanum mátti ekki taka töskurnar niður af veggnum og fær þær hálfan metra. Í staðinn var farið í flóknar framkvæmdir að draga tjald til og fela kassana. Gott og vel. Það var hinsvegar engin leið að fela slökkvitækið.
Það var heldur engin leið að sannfæra aðra meðlimi hópsins að færa slökkvitækið. Ekki einn metra. Það var eins það að taka öndunarvél ungabarns úr sambandi.
Loksins eftir mikið þras fékk ég að færa slökkvitækið en ekki fyrr en ég var búinn að lofa að ef eitthvað kæmi uppá, viðvörunarkerfi færi í gang eða það kviknaði í húsinu, myndi ég hlaupa um leið að slökkvitækinu, taka það upp og fara með á sinn stað. Þá áttaði fólk sig á því að metri til eða frá skipti kannski ekki öllu máli.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þú verður nú að fara að hætta að ógna öryggi samborgara þinna. Þetta náttúrlega gengur ekki lengur.
Gun.

1. september 2007 kl. 18:22  
Anonymous Nafnlaus said...

Hugsaðu þér að grípa í tómt ef það kviknaði í og í örvæntingu þurfa að færa þig um meter til að ná í slökkvitækið. Jihhh þið hefðuð öll dáið....úr hlátri já!

Stakstu ekki upp á því að þið semduð lítinn skondinn leikbút um þetta nákvæmlega?

2. september 2007 kl. 19:30  
Anonymous Nafnlaus said...

Var að detta inná bloggið. Snilld. Þú átt væntanlega eftir að kynnast því betur að brunavarnir eru teknar mun alvarlegar í Noregi en á fróni. Smelltu endilega símanúmerinu þínu á mig þegar/ef þú færð nýtt ásamt heimilisfangi og svona. Svona þegar maður fer að senda þér harðfisk og Freyju drauma...

2. september 2007 kl. 23:34  

Skrifa ummæli

<< Home

|