Krossfarinn

Ferðin til landsins helga

janúar 20, 2005

Kóngurinn og peðin

Íslensk yfirvöld hafa boðið Bobby Fisher velkomin til landsins og vilja veita honum griðarstað frá hinum illu ameríkönum. Greyið maðurinn gerði ekki neitt rangt en hans eigin þjóð ofsækir hann nú og núverandi gestgjafar hafa fengið nóg af honum. Auðvitað berst hjálparboð úr norðri. Fámenn víkingaþjóð, sem samanstendur mest af óttarlegum peðum, ræðst gegn heimsvaldariddurum og samúræjabiskupum, hvítum kóng til bjargar. Göfugt og ljóðrænt. En er hvítur kóngur í raun hvítur en ekki grár, jafnvel svartur. Erum við ekki að gleyma því að maðurinn er geðveikur. Hann er gyðingahatari og rasisti. Hann hefur enga stjórn á sjálfum sér og brennir allr býr sér að baki. Japanir gerðu það sama fyrir hann og við bjóðum núna og þrátt fyrir ótrúlega þolinmæði á hún, eins og flest annað, sér takmörk. Þeir sem vinna við að fá Bobby hingað viðurkenna að á endanum muni þetta að öllum líkindum gerast hér líka.
Ég veit ekki af hverju við vinnum sérstaklega í því að fá geðveikan mann inní landið. Við getum ekki einu sinni séð sómasamlega um þá landa okkar sem þjást af geðsjúkdómum. Fullt af fólki fær ekki þá ummönnun og aðhlynningu sem það þarf á að halda sökum fjármagnsleysis. Er ekki eitthvað athugavert við þessa mynd?
Í forystu þessa verkefnis, þ.e. að fá Fisher til Íslands, eru forystumenn skákmenningar á Íslandi. Ég skil það ekki alveg vegna þess að Fisher er löngu hættur að tefla. Hann spilar einungis eitthvert sérstakt afbrygði tafls sem hann fann upp sjálfur! Þetta vill hann kenna öllum og leysa hefðbundna skák af hólmi. Nærtækasta samlíkingin í mínum huga er maðurinn sem stoppaði mig fyrir utan bandaríska sendiráðið og sagði mér allt um nýja tónkerfið hans sem var öllu fremra. Hann samdi víst betri tónlist en Bach og Mozart með þessu kerfi. Hann ætlaði að frumflytja verk sitt eftir viku en lengra komst hann ekki. Lögreglan kom og tók hann uppí. Hann hafði víst strokið af Kleppi.
Mér fannst nóg komið þegar ég heyrði það í fréttum að við ætluðum að bjóða honum ríkisborgararétt og það á met tíma! Hvað er að gerast? Það er fullt af fólki hér sem lært hefur íslensku, unnið hér í fjölda ára og verið sér og sínum til sóma en samt fær það ekki ríkisborgararétt. Það er engu líkara en aðeins íþróttamenn fái blátt vegabréf með gylltu Íslandi. Hver man ekki eftir Duranona? Og Garcia? Og hvar eru þeir núna? Ekki á Íslandi og ekki í útlöndum með íslenska landsliðinu.
Þú ert velkomin til Íslands Bobby minn. En okki búast við mér við rauða dregilinn á flugvellinum með íslenska fánann í annari hendi og vegabréfið í hinni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|