Þá er ég lagður af stað í ferðina miklu. Leitin að hinum heilaga gral hefur leitt mig víða en nú finnst mér ég verakominn á rétta slóð. Ég finn það. Ég er kominn til Fredrikstad, gamals virkisbæjar við landamæri fornu erkifjendanna Noregs og Svíþjóðar, þar sem ég mun eyða næstu þremur árum leitar minnar.
Hingað komst ég eftir langt og svefnvana ferðalag. Fimm tíma flug auk ferðalaga til og frá flugvöllum til að komast frá Kanada í nýja heiminum til Íslands, dagur í heimahögunum þar sem grái BMW fákurinn minn gerði allt sem í hans valdi stóð til að skilja ekki við mig, og loks flug til Noregs þar sem ég missti af rútu frá Ósló til Fredrikstad, eða Friðriksstaða eins og ég kýs að kalla bæinn, sökum tímamismuna-ruglings.
Ég komst þó á leiðarenda í heimu lagi og sömuleiðis föggur mínar allar. Íbúðin sem mun verða bækistöðvar mínar næstu mánuðina er afar vel útilátin af plássi en skrautmunir og húsgögn bera þess merki að eigandinn virðist hafa hætt að huga að íbúðalegri framþróun árið 1991 þegar nýöldin náði endanlega tökum á honum. Afríkugrímur, myndir af saxafónum, tíbetísk veggsjöl í bland við ömmubollastell og pastellitt klósett. Ég fæ fyrrverandi barnaherbergið, með fyrirtaks skrifpúlti, koju, bleikum gluggatjöldum og Moglí ljósi. Það þarf vart að taka fram að framkvæmdir eru fyrirhugaðar.
Á morgunn hefst námið, leit mín. Þrjú ár í leiklistaskóla.