Nú eru óeirðir í Tíbet og tíbetskir andófsmenn á hestbaki þeysa um gresjur og stræti og draga tíbetska fánann að húni hvar sem hægt er að koma honum upp fyrir tvo metrana. Dalai Lama biður sitt fólk um að róa sig á meðan kínversk stjórnvöld segja hann standa að baki skarkalanum.
Tíbet hefur verið partur af Kínaverska lýðveldinu síðan 1949, að mig minnir. Síðan þá hefur barátta þjóðarinnar fyrir auknu frelsi og varðveislu menningar sinnar orðið að einhverskonar holdgervingu baráttu litla mannsins við stóra vonda kommúnistann, enda illa farið með þjóðina. En vandamálið er að staðan er ekki svo svart hvít.
Áður en Mao skipaði svo fyrir að Tíbet skyldi "frelsað" réðu munkaklaustrin ríkjum. Veldi þeirra má líkja við veldi evrópskra konunga og lénsherra á miðöldum (feudalism, þýðing óskast). Klaustrin og þeir sem tilheyrðu þeim höfðu einkarétt á menntun og þekkingu. Klaustrin áttu allt land og þurftu lénsbændur að borga dýra leigu. Þegar Kínverjarnir komu má því segja að þjóðin hafi skipt einum einræðisherranum út fyrir annan.
Kínverjar eru engir englar, en það er eins og enn leifi af gömlu Austur-Vestur grýlunni í viðhorfum okkar. Kommúnistarnir eru illir og stunda mannréttindabrot eins og við stundum fiskveiðar. Það er satt því það kemur fram í fjölmiðlum. Í sjónvarpsfréttum áðan var talað um Kína og mannréttindabrot þeirra. Talað var um aftökur, pyntingar og réttarkerfi í molum. Ekki var talað um aftökur, pyntingar og réttarkerfi sem oft hefur brugðist í frétt (sem flutt var sama kvöld) um árangur, eða skort á árangri, Bandaríkjanna í Írak.
Heimurinn er ekki svart-hvítur en það er auðvelt að draga úr litunum þangað til ekkert stendur eftir nema gott og vont, hægri og vinstri. Það er svo miklu þægilegra, sérstaklega þegar aðrir sjá um að gera það fyrir mann. Verst er að litirnir koma alltaf upp á yfirborðið aftur.
Ætli Kínverjar fari ekki að kalla tíbetska andófsmenn hryðjuverkamenn innan tíðar...