Á morgunn er frumsýning á Iphigeniu 2.0, fyrsta stóra leikstýrða verkinu mínu í skólanum hér í Fredrikstad. Sjáum hvernig það fer, ætti að verða áhugavert. Ekki það besta sem ég hef gert, en með því betra og mikið hef ég lært af þessu, sem er víst tilgangurinn með skólavist.
Ég vil tileinka frumsýningunni hvítabirninum sem skotinn var í Skagafirði á dögunum. Mér finnst gott að vita að dýr í útrýmingarhættu sem sigrast hefur á öllum líkum og ólíkum, synt yfir reginhöf og hitt á smásker í miðju Atlantshafi, sé boðið velkomið á vort áskæra frón með byssuskoti í bringuna. Ekki laust við að maður skammist sín fyrir landa sína sem eru svo hræddir við bangsann (og úrræðalausir sem er öllu alvarlegra) að þeir skjóta hann. Menn og konur sem sækja sjóinn í hvernig veðri sem er, kaupa upp heilu verslunargöturnar erlendis með peningum sem eru ekki til og standa af sér jarðskjálfta og eldgos, virðast ekki geta haft hemil á sér og séð til hvað hvítabjörninn gerir áður en hann er veginn. Nei, hann var örugglega svangur svo þetta var það eina í stöðunni.
Eitthvað hefur víkingablóðið útþynnst yfir aldirnar...