Iphigenia 2.0
Mér finnst merkilegt hvað sömu verkin eru sett upp aftur og aftur í leikhúsunum. Þá á ég við klassísk verk sem einhverra hluta vegna verða að vera á fjölunum með reglulegu millibili svo heimurinn gleymi þeim ekki. Shakespeare, Théckov og Ibsen. Þetta er sérstaklega slæmt hérna í Noregi þar sem stóru leikhúsin, með þjóðleikhúsið í broddi fylkingar, sýna ekkert sem ekki hefur sannað sig áður. Á tólf árum hefur þjóðleikhúsið að ég held frumsýnt þrjú ný norsk verk, þar af tvö eftir Jon Fosse sem er einn af stærstu leikritahöfundunum í dag. Ég þakka Guði fyrir að íslensk leikhús séu ekki jafn lokuð lifandi samlöndum sínum.
Þegar leikritara-snillingar koma fram á sjónarsviðið eru þeir oftar en ekki andsvar við ríkjandi stefnu. Þeir koma með nýjar hugmyndir, brjóta upp formið og hundsa reglurnar. Þetta gerist ekki með því að setja Pétur Gaut upp í 32. skiptið. Vissulega getur sýningin verið góðra gjalda verð, en hún verður lítið annað en endurgerð í skemmtanaskyni.
Ástæðan fyrir að þetta er ofarlega í huga mér nú er að bekkurinn minn er að setja upp gríska harmleikinn Iphigena. Reyndar er um nútímaútgáfu að ræða, nýtt verk byggt á upprunalega harmleiknum, og fátt stendur eftir úr 2.500 ára gömlu útgáfunni. Engu að síður þá finnst mér skrítið að gera ekki bara nýtt verk frá grunni og sækja innblástur í gamla verkið. En þá væri þetta líklegast ekki "alvöru harmleikur".
En hverjum er ekki sama. Ég fæ að tæma úr 9 mm púðurskotabyssu í pínulitlu leikhúsi. Við erum að tala um skilgreiningu á HÁVAÐA!